top of page
Search

Vísindaleg nálgun og hagkvæmni veiðanna

16. nóvember 2021 | Aðsent efni í Morgunblaðið 16 nóvember 2021

Eftir Svan Guðmundsson

"Það er engin skynsemi í því að slíta bæði mannskap og tækjum til að ná í afla sem við fáum lítið fyrir á markaði."

Í grein hér fyrir stuttu vakti ég athygli á því að það getur hugsanlega verið hagkvæmara fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn í heild sinni að veiða minna af loðnu og huga betur að ástandi markaða. Framlegðin yrði hærri og kostnaður minni ef við til dæmis myndum einungis veiða 250 þúsund tonn en ekki öll þessi 662 þúsund tonn sem ráðgjöf gerir ráð fyrir. Þetta er ekki einfallt í útfærslu en er skýrt dæmi um að hin líffræðilegu sjónarmið geta ekki ein gilt þegar horft er á afkomu útgerðar. Þrátt fyrir mikilvægi þeirra þá voru það fyrst og fremst markaðsaðstæður sem nýlega skiluðu okkur miklum verðmætum þrátt fyrir litla loðnuvertíð. Til þess að þetta geti orðið þurfa sjónarmið sem byggja á hámörkun þjóðarhags af auðlindinni að fylgja ráðgjöf Hafró og hinni pólitísku ákvörðun. Það segir sig sjálft að það er engin skynsemi í því að slíta bæði mannskap og tækjum til að ná í afla sem við fáum lítið fyrir á markaði þegar við vitum að verð afurða mun fyrirsjáanlega lækka við aukið framboð (sjá mynd).


Loðnan og bolfiskurinn Þessi stóri loðnustofn vekur einnig upp aðra spurningu. Hver verða áhrifin á bolfiskstofna sem nærast á loðnu? Slíkum spurningum þarf að vera hægt að svara í framtíðinni. Er þessi mikla sveifla í loðnustofninum hugsanlega tækifæri til rannsókna á því sviði? Að þessu þarf að hyggja.Takmörkuð vísindaleg þekking leiðir til þess að áðurnefnt líffræðilegt varúðarsjónarmið endurspeglast í lægra aflamarki en gæti verið ef byggt væri á meiri þekkingu. Þróun og vísindaleg nýsköpun hafa ef til vill verið full hæg hjá Hafrannsóknastofnun og fjárveitingar í grunnrannsóknir of litlar. Á sama tíma hefur verið hröð þróun í meðferð afla, orkusparnaði, veiðarfærum og stjórnun þeirra í sjó. Þannig hafa mörg skip komið sér upp búnaði til að fylgjast með veiðarfærum í rauntíma svo bæta megi virkni þeirra og gæði aflans. Segja má að þessi búnaður sé svo fullkominn að hvert skip sé nánast útbúið sem rannsóknarstofa. Aðeins þarf smávægilega fjárfestingu til viðbótar, bæta söfnun, vörslu og flutning gagna og þjálfa lykilmenn úr áhöfn til nauðsynlegrar sýnatöku á afla og skráningar áður en hægt er að virkja þessa rannsóknarstofur og auka starfsemi þeirra markvisst. Allt þetta er hægt að gera án þess að slaka á skilvirkni veiða. Þarna virðist vera tækifæri sem huga þarf að og frumkvæði langt umfram aðrar þjóðir. Metum hagkvæmni veiðanna Nýleg skýrsla Bláa hagkerfisins nær aðeins til stofnmats á karfa og grálúðu og þó skýrar niðurstöður hafi fengist er meiri rannsókna þörf og á fleiri fiskistofnum. Framkvæmdavaldið þarf að hafa frumkvæði að því að efla rannsóknir og nýta til þeirra öll hagkvæmustu tækifærin sem gefast. Ljóst er einnig að efla þarf þjóðhagslegt mat á arðsemi fiskistofna fyrir þjóðarbúið til að fjárveitingum megi stýra á sem hagkvæmastan hátt. Fiskveiðar og vinnsla er að öllu samanlögðu einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá sem gefur einna mest af sér. Um leið er hér um að ræða atvinnugrein með mikla vaxtarmöguleika. Því til viðbótar getum við flutt út okkar vísindalegu þekkingu á stofnvistfræði og tækni við rannsóknir og veiðistjórnun öðrum þjóðum til hagsbóta. Hér er því mikið í húfi. Höfundur er framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf. og sjávarútvegsfræðingur. svanur@arcticeconomy.com

23 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page