top of page
Search

Stofnmat án afráns

Stofnmat byggt án afráns er blekking. Vistkerfismodel, rauntímagögn, og ábyrg nýting eru forsenda traustrar ráðgjafar og öryggis sjávarbyggða.

Þorskur er að horast, nýting á honum í vinnslu hefur lækkað og óvissan í ráðgjöf um veiðiheimildir fer vaxandi. Samt tölum við enn um „stofnmat“ eins og hafið sé einfalt reikningsdæmi, nýliðun inn, tonn út. Í raun erum við að reyna að stýra flóknu vistkerfi með verkfærum frá því áður en gervigreind, stór gagnasöfn og nýjar vistkerfislíkanagerðir komu til sögunnar.

Um leið hafa Íslendingar ákveðið að  friða hvali og það fyrst og fremst af tilfinningalegum ástæðum. Um leið  látum við eins og þessi ákvörðun hafi engar afleiðingar fyrir þorsk, loðnu og aðra nytjastofna sem eiga að standa undir þjóðarbúinu.

Það er nákvæmlega þessi blinda sem blasir við þegar við ræðum um bolfisk, uppsjávartegundir og aðra lykiltegundir við Ísland án þess að hvalir séu formlega inni í reikningsdæminu.

Viðvörunarbjallan glymur víða

Ný rannsókn í tímaritinu Marine Ecology Progress Series ber óþægilegt heiti: „Vöðuselir hafa meiri áhrif en fiskveiðar á bata þorsks á Nýfundnalandi og Labrador.” . Þar er sýnt fram á að vöðuselur  við Nýfundnaland éti margfalt meira af þorski, grálúðu og öðrum botnfiski en veitt er af mönnum. Það  skýrir að stærstum hluta þá staðreynd  að þorskurinn nær sér ekki á strik þrátt fyrir mikinn samdrátt í sókn [1].

Við þekkjum þessa sögu líka héðan. Rannsókn í ICES Journal of Marine Science frá 2022 metur fæðuþörf sjávarspendýra í Norðaustur-Atlantshafi, þar á meðal á Íslandsmiðum, og ber saman við afla fiskveiða. Niðurstaðan er að sjávarspendýr á svæðinu neyta margra milljóna tonna á ári, víða meira en fiskiskipin taka upp. [2]

Gamlar aðferðir í nýjum heimi

Við höfum í grófum dráttum notað sömu hugsun í stofnmatinu allt síðan á seinni hluta síðustu aldar. Þar er horft á eina tegund í einu, langar tímaraðir, stöðluð rannsóknatog og svo aflaregla ofan á þetta. Það var framsækið 1985 en er ekkert sérstaklega framsækið árið 2025.

Í Norður-Atlantshafi hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að samband hvala, sela, loðnu, þorsks og umhverfis ráða hraða og möguleikum endurreisnar botnfiskstofna. Eldri greining í Marine Ecology Progress Series á norður-þorskinum við Kanada sýnir til dæmis að samspil rándýra (þar á meðal vöðusela), loðnu og hitafars skýrir miklu betur stöðnun stofnsins en veiðar einar og sér. [3]



Ísland býr yfir gögnum – en nýtir þau ekki

Íslenskur sjávarútvegur situr á miklu magni gagna, nákvæmum aflaupplýsingum, staðsetningu, dýpi, hitastigi, veiðarfærum, gögnum frá aflamælum og sífellt betri mælingum á samsetningu aflans í tíma og rúmi.

Þrátt fyrir það er stór hluti stofnmats enn byggður á tiltölulega fáum rannsóknaleiðöngrum og einföldum módelum sem skila „einni línu“ með varúðarmörkum. Þetta þýðir að afleiðingar óvissunnar lenda nánast alfarið á sjávarútvegnum og landsbyggðinni í nafni varúðar.

Nútíma gagnadrifin veiðistýring og stofnmat þar sem rauntímagögn úr flotanum eru samþætt veðurfari, umhverfisbreytum og vistkerfislíkönum er ekki lengur fræðileg framtíðarsýn. Hún er tilbúin í kerfum og tækni á borð við gervigreindarlíkön sem spá fyrir um dreifingu afla og samsetningu veiði hafar verið prófuð með góðum árangri. Slík kerfi geta dregið úr leitartíma, minnkað eldsneytisnotkun og meðafla og um leið gefið mun nákvæmari mynd af því hvað er að gerast í sjónum frá degi til dags.[4].

Verkefnið CATCH, sem Bláa hagkerfið hefur þróað, sýnir hvað er hægt að gera þegar þessi gögn eru sett inn í gervigreindarlíkön. Spáð er fyrir um hvar og hvenær líklegast er að ná tilteknum stofni, leitartími styttist, breytileiki veiðisvæða verður sýnilegur og nýting veiðisvæða batnar.  [5]

Útgerðin á að krefjast betri vísinda

Í dag er raunveruleg áhætta greinarinnar ekki bara hráefnisverð, skattar eða gjöld. Áhættan liggur í því að vera háð stofnmatstækni sem horfir fram hjá stórum hluta vistkerfisins eins og hvölum, breyttu fæðuframboði og hraðari loftslagsbreytingum en líkanagrunnurinn ræður við. Útgerðin hefur að mestu sætt sig við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hingað til, jafnvel þegar hún er augljóslega mótuð af mikilli óvissu.

Í dag er stærsta óvissan í rekstri sjávarútvegsins vísindin á bak við stofnmat fiskistofna. Það er kominn tími til að krafan um bættar aðferðir komi frá greininni sjálfri. Setja þarf upp vistkerfislíkön (fjölstofnamódel) fyrir helstu bolfisk- og uppsjávarstofna þar sem arðræningjar og lykilfæðutegundir eru með í útreikningum og að rauntímagögn úr flotanum verði formlega samþætt stofnmatinu.

Ef við gerum þetta ekki erum við í reynd að samþykkja að ráðgjöfin byggist áfram á „stofnmati án afráns“, sem er vart ásættanlegt þegar hundruð milljarða króna, atvinnuöryggi í sjávarbyggðum og fæðuframboð þjóðarinnar eru undir.

Stór hluti vandans liggur í vistkerfisbreytingum sem við reiknum einfaldlega ekki með. Það er ekki sjálfbærni. Það er sjálfsblekking.


Tilvísanir:


[1]West, H. o.fl. (2025). Harp Seals Have a Greater Impact Than Fisheries in the Stalled Cod Recovery in Newfoundland and Labrador. Marine Ecology Progress Series, 772, 215–231. (https://tinyurl.com/blaa2501)

[2]Skern-Mauritzen, M. o.fl. (2022). Marine mammal consumption and fisheries removals in the Nordic and Barents Seas. ICES Journal of Marine Science, 79, 1583–1603. (https://tinyurl.com/blaa2502)

[3]Buren A.D. o.fl. 2014). The role of harp seals, fisheries and food availability in driving the dynamics of northern cod. Marine Ecology Progress Series. (https://tinyurl.com/blaa2503)

[4]Planque B. o.fl. (2014). A food-web assessment model for marine mammals, fish, and fisheries in the Norwegian and Barents Seas (https://tinyurl.com/blaa2504)

[5]Agmata A.,Guðmundsson S. (2025) Convolutional-LSTM approach for temporal catch hotspots (CATCH) (https://tinyurl.com/OUP-CATCH)

 
 
 

Recent Posts

See All
Deilan sem afhjúpar tómarúm í vísindum Hafró

Eftir Svan Guðmundsson sjávarútvegsfræðing og Altair Agmata gagna vísindamann-AI-verkfræðingur. Nútíma veiðiráðgjöf þarf að fanga hitafar, strauma og samspil tegunda. Gervigreind nýtir mynstur í tíma

 
 
 

Comments


+354 8935055

  • facebook
  • twitter

©2020 by Bláa Hagkerfið. 

bottom of page