top of page
Search

Riða í landi og spilling á sjó


“Þessi rannsókn og tilurð hennar er einstök og furðulegt að ráðherra sendi eftirlitsstofnun eins og Samkeppniseftirlitið í veiðiferð af þessu tagi.”

Matvælaráðherra hefur margt á sinni könnu um þessar mundir. Gríðarlegir erfiðleikar steðja að sauðfjárrækt í landinu eftir að riðuveiki kom upp í Vestur-Húnavatnssýslu. Kemur það til viðbótar við annan vanda sem steðjar að landbúnaði sem hefur mjög erfiða rekstrarstöðu eftir áratuga samrekstur með ríkisvaldinu. Nú skyldi maður halda að einhver myndi átta sig á því að það er ekki endilega farsælt að láta ríkisvaldið stýra stefnumótun og rekstri í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar en það er nú samt það sem gerðist með landbúnaðinn sem er fyrir vikið meira og minna háður framlögum úr ríkissjóði.


Sjávarútvegurinn er líka á ábyrgð matvælaráðherra en segja má að með tilkomu kvótakerfisins árið 1984 hafi verið ákveðið að sjávarútvegurinn yrði að sjá um sig sjálfur, öfugt við landbúnaðinn. Til þess að sjávarútvegurinn gæti það varð að hagræða í rekstrinum samhliða því að ráðast í miklar fjárfestingar. Með það að leiðarljósi hefur Íslendingum auðnast að byggja upp hagkvæmasta og skilvirkasta sjávarútveg í heimi. Íslenskar sjávarafurðir eru eftirsóttar um allan heim og öfugt við ríkisstyrktar landbúnaðarvörur þá þarf ekki að niðurgreiða fiskinn ofan í erlenda neytendur. Íslenskur sjávarútvegur er arðsamur, skilvirkur og nútímalegur. Hann greiðir sjómönnum hæstu laun starfstétta hér á landi ef ekki um allan heim og tryggir þeim sem besta vinnuaðstöðu og leggur mikið uppúr öryggi. Skattgreiðslur fyrirtækja og starfsmanna í sjávarútvegi duga fyrir rekstri margra af grunninnviðum landsins. Þrátt fyrir það greiðir sjávarútvegurinn sérstakt auðlindagjald í ríkissjóð, einn sjávarútvega í heiminum.


En á sama tíma og matvælaráðherra fæst við riðuveikt sauðfé er hún að láta skoða og rannsaka sjávarútveginn. Það er augljóslega eitthvað að þar eins og nýlegri könnun á viðhorfi til sjávarútvegs sýnir. Matvælaráðherra lét ráðuneyti sitt fjármagna könnun Félagsvísindastofnunar sem meðal annars sýndi að 90% Pírata telja sjávarútveginn spilltan. Hvað þau 10% Pírata sem ekki telja svo eru að hugsa hlýtur að valda Pírötum áhyggjum en sem kunnugt er telja þeir íslenska þjóð svo spillta að best sé að skipta um fólk í landinu. En sú ákvörðun ráðherra að spyrja um spillingu með þessum hætti vekur athygli, sérstaklega í ljósi þess að könnunin sýnir ljóslega að aðspurðir töldu sig almennt ekki vita mikið um sjávarútveginn sem verður ekki dregið í efa hér.


Veiðiferð Samkeppniseftirlitsins

Samhliða þessari könnun er matvælaráðherra að láta Samkeppniseftirlitið rannsaka eignartengsl í sjávarútvegi og hefur tuttugu sjávarútvegsfyrirtækjum verið sendir langir og ítarlegir spurningalistar, meðal annars um hvað menn eru að hugsa á aðalfundum félaganna. Þessi rannsókn og tilurð hennar er einstök og furðulegt að ráðherra skuli geta sent eftirlitsstofnun eins og Samkeppniseftirlitið í veiðiferð af þessu tagi. Umboðsmaður Alþingis hefur rumskað af minna tilefni.


En báðar þessar aðgerðir ráðherrans eru í þeim tilgangi að undirbyggja aukið „félagslegt réttlæti“ í rekstri sjávarútvegsins eins og hún hefur sjálf tilgreint í samtölum. Með öðrum orðum, það á að víkja af braut skilvirkni, hagræðingar og gæðastjórnunar til að sinna huglægum markmiðum stjórnmálamanna. Þannig á væntanlega að innleiða „viðskiptamódel“ landbúnaðarins í sjávarútveginum eins gæfulegt og það er. Hafa má í huga að landbúnaðurinn er að mestu undanþegin samkeppnislögum.


Allt síðan kvótakerfið var tekið upp hafa málefni sjávarútvegsins verið með reglulegu millibili til umræðu á Alþingi og í æðstu stofnunum samfélagsins. Þrátt fyrir pólitískar heitingar hafa menn alltaf haft gæfu til að horfa í það grundvallarmarkmið að tryggja skilvirkni og rekstrarstöðu sjávarútvegsins vegna þess að við höfðum ekki efni á því sem þjóð að gera það öðru vísi. Stjórnmálamenn hafa komist upp með gylliboð til almennings um að sjávarútvegurinn geti greitt endalausan hvalrekaskatt um leið og ávirðingum um spillingu er teflt fram. Hvorugt stenst skoðun og sýnt hefur verið framá annað. Íslenskur sjávarútvegur býr við miklar áskoranir frá erlendri samkeppni sem oftar en ekki er ríkisstyrkt. Það skýtur því skökku við ef íslensk stjórnvöld telja sitt helsta hlutverk að bregða fæti fyrir hann hér á heimavelli með tilhæfulausum rannsóknum.


Greinin birtist í morgunblaðinu 22 apríl 2023


140 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

bottom of page