Makrílsamkomulagið 2025: sæti við borðið, en..
- Svanur Guðmundsson

- 13 minutes ago
- 2 min read
Samkomulagið er hægt að nálgast neðst á þessari færslu, Tekið af vef Færeyska þjóðþingsins.
Nýja samkomulagið um makríl milli Færeyja, Íslands, Noregs og Bretlands er kynnt sem “sögulegt”: Ísland sé loksins viðurkennt sem strandríki og “komið að borðinu”. Það er rétt á pappír. En útgerðin borgar ekki reikninga með viðurkenningu. Hún borgar með tonnum.
Samkomulagið skilgreinir annars vegar “strandríkjahlutdeild” Íslands 12,50%, en hins vegar “nettó-hlutdeild” eftir tvíhliða tilfærslur: 10,50%. Skjalið segir beint að þessi nettun komi eftir “bilateral quota transfers” og aðrar leiðréttingar.
Á sama tíma er TAC fyrir 2026 ákveðinn 299.010 tonn.
10,5% af því eru um 31,4 þúsund tonn. Ef menn vilja bera þetta saman við þá 16,5% stöðu sem Ísland hélt á lofti áður, þá er munurinn um 18 þúsund tonn miðað við sama TAC. Þetta er ekki smámunir. Þetta er hráefni, tekjur, vinnsla og skattspor.
Stærsta mistökin: leyndarpakki í tvíhliða skjölumAðalskjalið listar fimm tvíhliða “Agreed Records” (m.a. Ísland–Noregur og Ísland–Færeyjar) og segir að þau séu órjúfanlegur hluti samkomulagsins.
En almenningur og jafnvel stór hluti greinarinnar sér ekki í einu skjali: hvað var flutt, til hvers, og gegn hverju. Þarna á að ætti að vera uppgjör.
Annað vandamál: þetta er ekki heildarsamkomulagSkjalið viðurkennir að ekki hafi tekist að ná samkomulagi allra sex strandríkja.
Þýðingin er einföld: kerfið er enn brothætt. Ef ekki allir helstu aðilar eru inni í sama ramma, þá er alltaf hætta á kapphlaupi, pólitískum kvótum og að lokum þrengri ráðgjöf.
Hvað ef Ísland hefði ekki gert samning?Þá væru tvær sviðsmyndir líklegar:
Ísland heldur áfram með einhliða stefnu/kröfu (t.d. 16,5%) og ver hagsmuni sína harðar. Kosturinn: meira svigrúm heima og skýrari samningsstaða. Gallinn: meiri pólitísk átök, meiri óvissa um aðgang, og meiri hætta á að aðrir fari líka í einhliða veiðar.
Enginn sameiginlegur rammi og áframhaldandi “hver fyrir sig” stjórn. Þá er hættan sú að heildarveiði verði of há, sem endar oft með því að allir tapa – sérstaklega þeir sem eru að reyna að vera ábyrgir.
Þess vegna er “borðið” vissulega mikilvægt. En það á ekki að vera markmið í sjálfu sér. Markmiðið er: sanngjörn hlutdeild, gagnsæ tilfærsla, raunveruleg stjórn og virðiskeðja sem þjónar íslenskum hagsmunum ekki bara falleg orð í fréttatilkynningu.
Krafan er: Það þarf að birta tvíhliða viðaukana og sýnið nákvæmlega hvaða tilfærslur lækka Ísland í 10,5% og hvað kom í staðinn. Annars er þetta ekki “sögulegt samkomulag”. Þetta er söguleg þoka.





Comments