top of page
Search

Græn og blá verðmæti náttúru

Útdráttur. Grein í Morgunblaðinu 7. desember 2021
Ísland er umlukið hafi en í stjórnarsáttmálanum er rætt um grænu verðmætin. Eru menn að gleyma bláa hagkerfinu?

Þó óþarfi sé að etja atvinnugreinum saman þá getur ólík verðmætasköpun milli einstakra atvinnugreina verið sláandi, greina í bláa og græna hagkerfinu. Það sjáum við til dæmis þegar við skoðum laun í sjávarútvegi annars vegar og svo hins vegar í gisti- og veitingastarfsemi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands þá greiðir sjávarútvegurinn 886 þúsund kr. í laun á mánuði án launatengdra gjalda. Samsvarandi tala er 309 þúsund kr. á mánuði í gisti- og veitingastarfsemi. Þarna er munurinn nærri þrefaldur. Inni í þessari tölu sjávarútvegsins eru veiðar, vinnsla og fiskeldi. Ef við töku fiskveiðarnar einar út þá eru meðallaun þar 1.314 þúsund krónur eða heilli milljón kr. meira á mánuði en í gisti- og veitingastarfsemi greiðir. Þetta er sláandi samanburður og dregur fram þá gríðarlegu framleiðni og verðmætasköpun sem finna má í sjávarútvegi hér á landi.



Af hverju er verið að benda á þetta hér? Jú, stundum er eins og vanti skilning á mikilvægi sjávarútvegsins og hve langt hann hefur náð þegar kemur að framleiðni og sjálfbærni. Þar er hann í fararbroddi og löngum verið okkar helsta og traustasta atvinnugrein. Höfum hugfast að sjálfbær þróun er háð breytingum sem ráðast af þekkingu, tæknistigi og samfélagsskipan á hverjum tíma. Án fiskveiða og þeirrar tæknivæðingar sem þar hefur átt sér stað, sem hefur skilað sér í hagkvæmum veiðum og vinnslu, værum við sem þjóð ekki eins vel sett og raun ber vitni. En þetta hefur einnig skilað sér í sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og framsækni þegar kemur að mengunar- og umhverfismálum. Því má spyrja, hvers vegna við erum stöðugt að elta skottið á þjóðum sem eiga við mikinn vanda að etja í sínum umhverfismálum? Oft er eins og við sýnum því sem við erum að gera í sjávarútveg furðu mikið tómlæti, þeim árangri sem hefur gefið okkur mesta auðlegð allra þjóða. Það gerist þrátt fyrir að við séum stöðugt að reyna að gera betur hér heima og um leið með því að kenna öðrum þjóðum hvernig við nýtum auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt.


Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er mikið talað um græn verðmæti náttúrunnar, en skyldu þau bláu gleymast? Það fyrirkomulag sem við höfum sett upp á stjórn fiskveiða er forskrift sem gæti orðið öðrum þjóðum til heilla. Það sem skortir á frekara starf á því sviði er að aðrar þjóðir vita bara ekki hvernig við fórum að þessu. Þessa þekkingu á stjórnun, vísindum og tækni eigum við að flytja út og kenna þá forskrift sem við förum eftir við stjórn veiða og vinnslu.


Það er betra að leiða en að vera leiddur. Við Íslendingar höfum tækifæri til að vera leiðtogar þegar kemur að framsæknum, sjálfbærum og umhverfisvænum sjávarútvegi. Við búum yfir einstakri þekkingu á þessu sviði og okkur ber að leiðbeina öðrum þjóðum og lýsa þeim leiðina.


Reykjavík 1 des. 2021

12 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

bottom of page