top of page
Search

Fiskveiðilögsagan á heimsminjaskrá

“ Að skrá íslensku fiskveiðilögsöguna á heimsminjaskrá UNESCO myndi viðurkenna þessa arfleifð og tryggja að framtíðarkynslóðir geti lært af og kynnst þessari mikilvægu sögu”

Í dag eru þrjú svæði á Íslandi á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Það eru Þingvellir, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarður sem öll uppfylla þá forsendu að hafa ótvírætt og einstakt alþjóðlegt gildi í menningarlegu eða náttúrufarslegu tilliti og því ber að vernda þau sem sameiginlega arfleið mannkyns. Þegar svæðin voru samþykkt sem heimsminjar skipti ekki síður máli þær miklu vísindalegu rannsóknir sem á þeim höfðu verið framkvæmdar og þau gögn sem eru til um þau. Skráningin var að hluta til viðurkenning á þekkingu okkar Íslendinga á þessum svæðum sem eru nýtt eftir vísindalegri leiðsögn.

 

Á sama hátt má segja að Ísland með sína einstöku sögu sjósóknar, verndunar, rannsókna og nýtingar hafi kjörið tækifæri til að láta skrá íslensku fiskveiðilögsöguna og þá um leið fiskveiðistjórnunarkerfið í heild á heimsminjaskrá UNESCO. Með því væri í senn verið að viðurkenna einstaka sögu fiskveiða hér við land og áhrif þeirra á menningu og sögu þjóðarinnar.

 

Fiskveiðar hafa verið lykilþáttur í íslenskri sögu og menningu í árhundruð. Þær hafa ekki aðeins verið mikilvægar fyrir efnahag landsins heldur hafa þær einnig mótað þjóðarvitundina og daglegt líf landsmanna. Að skrá íslensku fiskveiðilögsöguna á heimsminjaskrá UNESCO myndi ekki aðeins viðurkenna þessa arfleifð, heldur einnig tryggja að framtíðarkynslóðir geti lært af og kynnst þessari mikilvægu sögu.

 

Dregur fram mikilvægi sjálfbærra fiskveiða

Það skiptir ekki síður máli að slík skráning á heimsminjaskrá UNESCO myndi auka athygli á heimsvísu á mikilvægi sjálfbærra fiskveiða og fiskveiðistjórnunar. Óumdeilt er að íslenskar fiskveiðar hafa verið leiðandi í sjálfbærum aðgerðum og stjórnun auðlinda, svo mjög að margir erlendir fræðimenn treysta sér til að segja þetta besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Það að fá tækifæri til að deila þessari þekkingu og reynslu á heimsvísu gæti haft jákvæð áhrif á fiskveiðar undir merkjum sjálfbærni.

 

Um leið myndi umsóknin og vonandi skráningin sjálf veita mikilsvert tækifæri til að fræða og upplýsa alþjóðasamfélagið um sögu og mikilvægi íslenskra fiskveiða. Það eitt og sér væri jákvæð landkynning og hefði í för með sér efnahagslegan ávinning. Skráning íslensku fiskveiðilögsögunnar á heimsminjaskrá UNESCO myndi einnig vera viðurkenning á harðfylgi og dugnaði íslenskra sjómanna í gegnum tíðina. Það væri viðurkenning á því hvernig þessi starfsgrein hefur mótað þjóðina og menningu hennar.

 

Loks er mikilvægt að Ísland taki þátt í að skrá og vernda þekkingu fiskveiðistjórnunar, ekki aðeins fyrir Íslendinga sjálfa, heldur einnig fyrir alþjóðasamfélagið. Skráning íslensku fiskveiðilögsögunnar á heimsminjaskrá UNESCO myndi í senn vera táknræn og hagkvæm aðgerð í þessum tilgangi. Vert er að geta þess að skráning sem þessi er ekki óþekkt hjá UNESCO og má sem dæmi taka að Alto Douro svæðið í Portúgal er á heimsminjaskrá með vísun í að vín hefur verið framleitt af landeigendum á svæðinu í um 2.000 ár. Þessi langa hefð fyrir vínrækt hefur skapað einstaka menningu sem endurspeglar tæknilega, félagslega og efnahagslega þróun svæðisins í heild. Það þótti UNESCO tilefni til að setja svæðið í heild á heimsminjaskrá.

 

Augljósar röksemdir

Þegar aðferðafræði við skráningu á heimsminjaskrá UNESCO er skoðuð blasir við að horft er til þess að umrædd menningar- eða náttúruverðmæti þurfa að innihalda mikilvæg dæmi um ferla sem eru aðallega eða einungis sýnilegir manninum. Þessi viðmið fela í sér að það verður að sýna fram á hvernig viðkomandi staður eða fyrirbæri er mikilvægur fyrir jarðsögu, líffræðilega þróun eða náttúruferla sem hafa haft áhrif á þróun lífvera á landi eða í vatni. Nú er það svo að enginn fiskur er veiddur innan íslensku lögsögunnar án þess að um það gildi lög sem byggja á vísindalegum grunni með sjálfbæra verndun að leiðarljósi. Allt sem gert er á landgrunninu er háð lögum og reglum og í raun er allt bannað nema það sé leyft. Það er einstakt.

 

Í tilfelli íslensku fiskveiðilögsögunnar og skráningu hennar undir viðmiði ix á heimsminjaskrá UNESCO, þyrfti að leggja áherslu á sýna fram á hvernig íslenskar fiskveiðar hafa þróast í átt að sjálfbærri nýtingu og verndun sjávarauðlinda. Þetta inniheldur rannsóknir á landgrunni, vöktun vistkerfa, stjórnun fiskistofna og áhrif þeirra á sjávarvistkerfið. Eða eins og segir um verksvið Hafrannsóknarstofnunar; „efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna.“ Einnig væri mikilvægt að sýna fram á hvernig fiskveiðar hafa mótað menningu og samfélag Íslands, þar með talið áhrif á búsetumynstur, efnahagslíf og menningu landsins. Í umsóknarferlinu yrði lögð áhersla á hin sérstöku tengsl milli Íslendinga og hafsins og hvernig þessi tengsl hafa mótað bæði íslenska samfélagið og náttúruna í hafinu kringum landið.

 

Jákvæð áhrif

 

Skráning íslensku fiskveiðilögsögunnar á heimsminjaskrá UNESCO gæti haft umtalsverð jákvæð áhrif á markaðssetningu sjávarútvegsins. Að vera á heimsminjaskrá veitir alþjóðlega viðurkenningu sem getur styrkt orðspor Íslands sem leiðandi aðila í sjálfbærum og ábyrgum fiskveiðum. Þetta gæti aukið traust neytenda og viðskiptavina á íslenskum sjávarafurðum.

Ekki aðeins sem hágæða vörur, heldur einnig að þær séu framleiddar í samræmi við hefðir og aðferðir sem UNESCO hefur viðurkennt. Markaðssetningin gæti þannig lagt áherslu á sögulega og menningarlega mikilvægi íslenskra fiskveiða, sem myndi gera íslenskar sjávarafurðir einstakar í augum neytenda. Það gæti aukið eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum í ljósi vaxandi áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar neysluvenjur.

 

Síðast en ekki síst myndi skráningin undirstrika skuldbindingu Íslands við sjálfbærar aðferðir í fiskveiðum og gæti opnað dyr fyrir samstarfsverkefni við alþjóðleg umhverfis- og sjálfbærniverndarsamtök sem aftur gæti styrkt ímynd Íslands sem ábyrgs og umhverfisvæns sjávarútvegslands. Um leið gæti það stutt við skuldbindingar okkar á alþjóðavísu við innleiðingu á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu erlendis.



 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8 desember 2023

150 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

bottom of page