Ráðgjöf í gullkarfa, djúpkarfa og grálúðu
Föstudaginn 9. júní sl. var gefin út árleg spá Hafrannsóknarstofnunar um stofnmat botnfiskasviðs og lagt til að aflinn á næsta fiskveiðiári verði eftirfarandi:
Að venju vekur spá Hafró mikla athygli. Að þessu sinni vekur sérstaka athygli aukning í úthlutun á gullkarfa, um 62% og tillaga um veiðistopp á djúpkarfa. Einnig mikill samdráttur á veiði grálúðu. Á síðasta ári var gullkarfi dreginn niður um 20% en grálúða aukin um 13%. Uppgefin ástæða er breytt áhersla þegar kemur að túlkun gagna.
Ráðgjöf í djúpkarfa vekur einnig sérstaka athygli. Á árunum 2010 til 2016 er veiði sett við 10.000 tonn en svo var hún hækkuð og lækkuð á víxl þar til að núna er sett bann við veiði. Djúpkarfinn var fyrst settur í kvóta árið 2010 og ákveðið var, að þar sem karfi hafði ekki verið skráður sérstaklega í löndun var áætlað (skotið á) að skipting á milli djúpkarfa og gullkarfa væri 40/60, óháð því hvar menn höfðu verið að veiða.
Bláa hagkerfið setti saman skýrslu um stofnmat gullkarfa og grálúðu og birti í september 2021. Komu þar fram margar og merkilegar niðurstöður og er líklegt að sú skýrsla hafi haft áhrif á sérstaka skoðun sem nú er framkvæmd á þessum tegundum. Vitað er að haldnir voru miklir rýnifundir á vegum Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES). Síðast var rýnifundur um þessar tegundir árið 2017 en veturinn 2022 var tekið verulega á þessum tegundum og gefin út mikil skýrsla, alls 408 bls. Meðal annars var tekinn fyrir gullkarfinn sem núna er aukinn um 62% en á síðasta ári var dregið úr veiðinni um 20% eins og áður sagði.
Einn karfi verður tveir
Sögulega séð tók úthlutun aflaheimilda fyrir karfa sameiginlega til tveggja karfategunda,
djúpkarfa og gullkarfa, allt frá því kvótakerfið var sett á 1984. Það var hins vegar tillaga Hafrannsóknastofnunar að aflamarki yrði úthlutað sérstaklega fyrir hvora tegund og gerðist það með lagabreytingu árið 2010.
Útgerðin taldi eðlilegt að úthluta aðskildum aflaheimildum fyrir hvora tegund og gerði enga athugasemd við það. Hins vegar töldu margir fráleitt að ætla síðan að úthluta aflaheimildunum hlutfallslega á alla sem fá heimildir í karfa og styðjast ekki við aflareynslu.
Töldu menn það einstaka aðgerð og að engin rök væru fyrir slíkum vinnubrögðum sem hafi í raun verið óskiljanlegt stílbrot í fiskveiðistjórnuninni.
ICES niðurstöður
En aftur að rýniskýrslu ICES. Þar koma fram allar forsendur fyrir stofnmati einstakra stofna svo og ákvarðanir um breytingu á útreikningum og meðferð gagna. Ekkert tillit er tekið til rekstrarumhverfis fyrirtækja við veiðar. Eingöngu er unnið með vísindaleg gögn og rágjöf veitt útfrá fyrirliggjandi gögnum. Þar sem fjallað er um djúpkarfan á undirsvæði 14 og hluta 5.a, á blaðsíðu 287 segir:
“The current assessment approach (ICES DLS method, based on suvey trends) is not considered to capture true state of the stock”. Þýðing [Núverandi matsaðferð (ICES DLS aðferð, byggt á rannsóknum) er ekki talin ná utan um raunverulegt ástand stofnsins.]
Og svo þetta á blaðsíðu 287.
Sem sagt, ekki er hægt að segja til um ástand djúpkarfastofnsins á þessu svæði. Jafnframt segir í skýrslu ICES CM 2011/A:15 að dreifing djúpkarfa S.Mentella nái frá Nýfundnalandi og norður í Barentshaf. Þeir karfar sem eru hér á landgrunninu eru fáir en eru hluti af miklum stofni sem dreifist um allt þetta hafsvæði.
Varnaðarorð
Með veiðibanni á þessum fáu fiskum, sem veiðast innan okkar landgrunns, setjum við í uppnám allar veiðar en þó sérstaklega veiðar á grálúðu og gulllax. Hætta er á að veiðar á þessum tegundum leggist af ef farið verður eftir þessari hólfaskiptu ráðgjöf.
Comments