top of page
Search

Þjóðgarðurinn og landgrunnið

Verndun og nýting hefur mörg andlit. Þjóðgarðar og verndarsvæði á Íslandi stækka ár frá ári um leið og margvísleg hagnýting þeirra eykst.
Landið okkar og hafsvæðið umhverfis er sameign þjóðarinnar sem okkur ber að ganga vel um, vernda og nýta á sjálfbæran hátt.

Það er líklega óumdeilt að þjóðgarðurinn á Þingvöllum er helgasti og sögulegasti staður íslensku þjóðarinnar, nokkurn veginn sama hvernig á það er litið. Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2004 . Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1.000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Á undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Enginn efast um að staðurinn er náttúruundur og um leið einstakur í sögu þjóðarinnar.


En á vef Þingvalla kemur einnig fram að síðustu viku hafa 15.000 manns lagt leið sína þangað. Umsvif og rekstur í þjóðgarðinum eru gríðarleg og vaxa ár frá ári þó vissulega sé reynt að gæta varfærni. Vegir liggja um þjóðgarðinn þvers og kruss, fjölda húsa er þar að finna og margir hafa atvinnu af því að starfa í þjóðgarðinum. Þingvallavatn er gjöfull og fjölbreyttur veiðistaður og í vatnið eru seld veiðileyfi.


Vernd og hagnýting

Af hverju er ég að nefna þetta? Jú, verndun og nýting hefur mörg andlit. Við sjáum það núna þegar þjóðgarðar og verndarsv


æði á Íslandi stækka ár frá ári um leið og margvísleg hagnýting þeirra eykst. Að sumu leyti getum við sagt að nýting þeirra færist frá landbúnaði til ferðamennsku eins og hefur gerst í Þingvallaþjóðgarðinum. Þar er unnið að því að bæta aðkomu og aðstöðu ferðamanna á hverju ári um leið og fjöldi þeirra eykst. Það er ekki verið að amast við þessu hér, eingöngu verið að benda á augljósa hluti.


Sumir tala eins og engin verndun sé á hafsvæðunum við Ísland, þar sé eingöngu skefjalaus nýting og því verði að breyta. Margir innan náttúruverndarsamtaka og í ferðaþjónustunni eru farnir að tala um að Ísland sé eftirbátur í vernd hafsins. Að langt innan við eitt prósent hafsins við Ísland teljist hafverndarsvæði. Skiptir engu þó Íslendingar hafi verið í forystu við að skapa hagkvæmar og sjálfbærar veiðar og loki stórum hlutum innan efnahagslögsögunnar í skemmri eða lengri tíma. Það eru útúrsnúningar að fjalla um málið eins og engin verndun sé á hafsvæðum við Ísland og að við séum eftirbátar annarra þjóða. Hvernig má það vera þegar sumar nágrannaþjóðir okkar eru búnar að fylla landhelgi sína af olíuborpöllum, vindmyllugörðum og fiskeldiskvíum? Eða þær þjóðir sem hafa svo til enga stýringu á veiðum eða skipulagi sinna hafsvæða. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.


Staðreyndir um 30/30 markmiðin

En eins og oft áður verður að horfa á hlutina í samhengi. Ferðaþjónustan situr svo til ein að nýtingu þjóðgarða landsins og sel


ur erlendum ferðamönnum aðgengi að þeim (án þess að greiða nein auðlindagjöld). Útgerðin aftur á móti er með vel stýrt aðgengi að hafsvæðinu við Ísland. Allir þeir sem eiga bát með veiðileifi mega fara á sjó en takmörk eru við magn sem má veiða, hvar og hvenær má veiða og með hvaða veiðarfærum á hverjum stað. Um leið greiðir hún þriðjung af framlegðinni í auðlindagjald. Allt með þeim vísindalegu aðferðum og takmörkunum sem sjávarútvegurinn í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun hefur þróað.Ekki er langt síðan ég vakti máls á 30/30 markmiðunum svokölluðu en þau byggjast á því að friða 30% af landi og hafi fyrir ágangi mannsins. Villandi umræða er nú þegar um markmiðin sem byggist á vanþekkingu á stöðu okkar landgrunns og nýtingu auðlindarinnar. Af sama meiði er umræða um líffræðilegan fjölbreytileika, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra nýtingu. Nú þegar höfum við náð markverðum árangri í sjávarútvegi og höfum lagt línurnar um hvernig megi standa að sjálfbærri nýtingu auðlinda í framtíðinni. Jafnvel svo að við getum orðið öðrum til leiðsagnar um nýtingu og vernd, rétt eins og við erum væntanlega að gera í þjóðgarðinum á Þingvöllum.


Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 14 mars 2023


126 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page