Þorskurinn og sjálfstæðið: Sagan sem við gleymdum
- Svanur Guðmundsson

- 4 days ago
- 3 min read
„Sagan um þorskinn er saga um hvernig þjóðir öðlast sjálfstraust, aga og sjálfstæði með því að beisla hafið.“ – Mark Kurlansky
Mark Kurlansky skrifar í bók sinni Cod – A Biography of the Fish That Changed the World að sagan um þorsk sé saga um hvernig þjóðir öðlast sjálfstraust, aga og sjálfstæði með því að beisla hafið. Hann lýsir heimi þar sem saltfiskur var ekki bara útflutningsvara heldur félagslegt lím og efnahagslegt afl. Bryggjan varð hlið inn í pólitískt frelsi og frjálslynda borgaramenningu. Nýlendurnar í Norður-Ameríku byggðu upp efnahagslegt sjálfstæði með fiskinum, þróuðu viðskiptanet og reglu og fengu þannig þann styrk sem síðar varð að pólitískri sjálfstæðisbaráttu. Kurlansky minnir á að frelsið varð ekki til á vígvellinum heldur kviknaði það við sjóinn, í samstarfi sjómanna, kaupmanna og verkafólks sem lærði að treysta hver öðrum og náttúrunni á sama tíma.
Þessi saga á beint erindi við Ísland. Íslensk þjóð mótaðist í harðbýlu sambýli við hafið. Þorskastríðin voru ekki söguleg frávik heldur eðlileg niðurstaða af aldargamalli baráttu um að ráða eigin örlögum. Við útvíkkun í 200 mílurnar varð til sú samkennd sem sameinaði fólk um leiðina til að njóta sjálft afraksturs þeirra verðmæta sem lífríki sjávar gaf þeim. Þegar menn hugleiða hvernig smáþjóð nær ákvörðunarrétti gerum við það með ábyrgum hætti í rekstri og umgengni við náttúruna en ekki með stóryrðum og upphrópunum.
Sagan á undan slagorðum
Í Portúgal lifir sjórinn enn í hjarta þjóðarinnar. Þar er sögunni af tengslunum við hafið haldið á lofti í listum og hefðum af miklu stolti eins og ég lýsi hér í síðustu grein minni. Þjóðin lifir í sögunni, sögu sem þjóðin skrifar sjálf af eigin rammleik og frumkvæði. Hér höfum við hins vegar týnt sögunni í bókhaldi og rekstrartölum stjórnsýslunnar. Okkar saga er að hverfa og hverfi hún alveg skiljum við ekki lengur hvaðan við komum.Við verðum áhorfandi og dæmd til að herma eftir öðrum og hættum um leið að móta eigin örlög.
Kurlansky sýnir hvernig þjóðir sem héldu tengslum við hafið mótuðu sín örlög en þær sem gerðu það að óljósu „sameiginlegu“ fyrirbæri misstu bæði aga og arð. Það sama gildir hér, frásögnin um þorskinn er ekki rómantík heldur vitneskja um að frelsi verður til ískýrum reglum, skýrum verkum og með gagnkvæmri ábyrgð.
„Hver á fiskinn?“ – kjarninn án útúrsnúninga
Í umræðunni um eignarhald og nýtingu sjávarauðlinda hefur slagorðið „hver á fiskinn í sjónum” verið gert að aðalatriði. Svarið er einfalt og það er jafn gamalt og sjómennskan sjálf. Enginn á fiskinn í sjónum. Enginn á hann fyrr en hann er veiddur. Þá verður aflinn eign þess sem veiddi, innan þeirra krafna og eftirlits sem samfélagið skilgreinir. Rétturinn til veiða er afleiðing þess að einhver bar áhættu og kostnað í upphafi, lærði á miðin, skóp getu til veiða og þróaði regluumhverfi með sjálfbærni að markmiði.
Þegar við höfum skipt þessum kjarna út fyrir einangraðar orðræður um „þjóðareign“ án þess að tengja þær við verklegar skyldur, gleymist ábyrgðin. Ábyrgð og réttur eru tvær hliðar á sama pening. Því var ábyrgð okkar á lífríki hafsins upphaflega undirstrikuð með hugtakinu þjóðareign. En ef ábyrgðin gleymist í innantómu orðaskaki verður rétturinn minna virði og sjálfstæðinu ógnað.
Þorskastríðin og 200 mílur – verkfæri sjálfstæðis
Það er freistandi að gera þorskastríðin að ævintýri sjálfstæðisbaráttunnar en þau voru í grunninn pólitísk og siðferðileg ákvörðun um að vernda fiskimiðin til framtíðar. Útfærsla í 200 mílurnar var ekki einnota sigur heldur skuldbinding þar sem við tókum ábyrgð á lífríkinu, settum upp ramma nýtingar og fylgdum honum. Þetta var lærdómur í anda Kurlansky, frelsi er viðhaldsvinna ekki einnota uppákoma. Í því felst samningur milli kynslóða sem krefst ábyrgðar og reglu.
Samanburður við Portúgal er eftirtektarverður og gagnlegur. Þar lifir sjórinn í menningu þjóðarinnar og vitneskjan um þessa sögu dregur enn saman fólkið í landinu og gerir það stolt af sameiginlegum arfi. Hér heima hefur umræðan stundum orðið feimnisleg eins og sjórinn væri vandræðalegur bókhaldslykill. . Frásögnin um þorskinn er lifandi samningur milli kynslóða þar sem við berum virðingu fyrir náttúru, vinnu og reglu. Látum ekki tískustrauma eða ytri þrýsting draga upp þá mynd að hafið sé „sameiginleg gæði“ án nokkurs sögulegs samhengis.
Sagan sem verndar og skuldbindur
Kurlansky hafði rétt fyrir sér: Þorskurinn breytti heiminum, ekki einungis vegna verðmætis hans heldur einnig vegna þess að hann kenndi þjóðunum sem nýttu hann reglu, aga og trú á eigin getu. Við skulum kalla hlutina réttum nöfnum. Það á enginn á fisk í sjónum en rétti fylgir ábyrgð. Við látum kvótann vera ramman sem þjónar þessari reglu en látum þorskinn og fólkið við sjóinn segja söguna.
Ef við gleymum hafinu gleymum við hver við erum. Ef við höldum sögunni á lofti halda 200 mílurnar áfram að vera meira en lína á korti. Baráttan fyrir útfærslu landhelginnar ervitnisburður um þjóð sem kýs að móta eigin örlög. Þorskurinn hjálpaði okkur að verða sjálfstæð þjóð og hann minnir okkur á að frelsi þarf ramma og umgjörð og fólk sem deilir sameiginlegri ábyrgð.




Comments