top of page
Search

Villandi umræða um ofurhagnað sjávarútvegsins

Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslensku samfélagi. Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa „upp“ aðrar atvinnugreinar. Ekkert er fjarri lagi, því fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist og arðsemi þar er síst meiri en við eigum að venjast á íslenskum fyrirtækjamarkaði. Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu þó þau starfi í mjög krefjandi umhverfi þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð á sama tíma og þau þurfa sífellt að aðlaga sig að breytingum sem lúta að grunnþáttum greinarinnar.


Framlegð sjávarútvegs byggir ekki á fákeppni


Í síðustu grein minni hér í Morgunblaðinu sýndi ég fram á að samþjöppun er til þess að gera lítil í sjávarútvegi. Í framhaldi af því er rétt að horfa til afkomu sjávarútvegsfyrirtækja eins og hún birtist í sömu gögnum og stuðst var við þá. Þá er mikilvægt að horfa á mismunandi atvinnugreinar. Hér berum saman nokkra atvinnugreinaflokka Hagstofunnar (ISAT) eins og vatnsveitur, rafmagnsframleiðslu, fjármálastarfsemi, tryggingarfélög, mannvirkjagerð, fjarskiptafélög, sjávarútveg, alla smásölu, heildverslun og byggingu húsnæðis. Ef við síðan berum saman nokkrar lykilstærðir, eins og framlegð og ávöxtun eigin fjár, þá fáum við upp þá mynd sem hér fylgi. Hún sýnir okkur að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja byggist á um 14% ávöxtun eigin fjár og 25% framlegð. Því hærri sem framlegðin er því meira er greitt í auðlindagjald því þriðjungur framlegðar útgerðar fer til greiðslu auðlindagjalds. Afkoma áranna 2020 og 2021 var sérstaklega góð í sjávarútvegi.
Þessi mynd er byggð á skoðun á ársreikningum um 900 félaga frá árunum 2020 og 2021. Þannig hlýtur að vekja athygli að vatnsveitur og rafmagnsframleiðsla eru með góða framlegð þótt ávöxtun eigin fjár sé ekki há. Bankar og tryggingafélög eru sömuleiðis með háa framlegð en einnig góða ávöxtun af eigin fé. Getur það tengst því að þarna eru til þess að gera fá fyrirtæki (oft aðeins þrjú) að starfa á umræddum markaði?


Sambærileg arðsemishlutföll og í mannvirkjagerð


Það er óhætt að segja að afkoman í sjávarútvegi sé síður en svo einstök og satt best að segja ekkert sérstök. Við sjáum einnig af myndinni að það eru svipuð arðsemishlutföll í sjávarútvegi og mannvirkjagerð þó að markaðshlutdeild í sjávarútvegi sé dreifðari. Í því sambandi væri án efa áhugavert að skoða hinar miklu sveiflur í afkomu sjávarútvegsfyrirtækja samanborðið við afkomu annarra greina fyrir fleiri ár en þessi tvö sem hér eru undir. Fáar atvinnugreinar búa við jafnmiklar ytri áskoranir og sjávarútvegurinn eins og áður sagði. Einnig verður að horfa til þess að nútíma sjávarútvegur kallar á meiri fjárfestingu en margar aðrar starfsgreinar, nema hugsanlega rafmagnsframleiðsla. Frystitogari kostar meira en vöruskemma eða skrifstofur utan um tryggingastarfsemi, svo dæmi séu tekin. Þegar vel veiðist eru margir uppteknir af aflatölum og aflaverðmæti eins og við þekkjum af laxveiðimönnum. En þegar ekkert fiskast þegja flestir.


Allir græða þegar vel gengur.


Ef fyrirtækjum í sjávarútvegi tekst að bæta afkomu sína þá græðir þjóðin í formi hærri auðlindagjalda, auknum skattgreiðslum og vaxandi gjaldeyristekjum. Mikilvægt er að stjórnmálamenn átti sig á því og stuðli að bættum leikreglum þannig að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja verði enn betri. Jafnframt getum við bætt enn frekar í og flutt út okkar þekkingu á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og aðstoðað aðrar þjóðir við að reka sinn sjávarútveg á hagkvæman hátt. Það gerist ekki með því að dreifa ósannindum um stöðuna eða farið í tilraunastarfsemi og breytt rekstrarform þegar það fyrirkomulag sem við vinnum eftir er nú þegar álitið það besta í heimi af flestum sem til þekkja.


22 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page