top of page
Search
Writer's pictureSvanur Guðmundsson

Villandi staðhæfingar um ríkisstyrki í sjávarútvegi



Íslenskur sjávarútvegur í heild nýtur ekki ríkisstyrkja. Íslenska ríkið hefur þvert á móti miklar skatttekjur af sjávarútvegi, bæði með beinum og óbeinum hætti en auk þess hefur verið lagt sérstakt veiðigjald á sjávarútveg, umfram það sem önnur fyrirtæki í landinu gera sem nota auðlindir þess. Íslenskur sjávarútvegur er að öllum líkindum sá skilvirkasti og best rekni í heiminum sem gerir greininni fært að greiða góð laun og fjárfesta til framtíðar. Um mikilvægi þess fyrir þjóðina að sjávarútvegurinn sé rekinn með þessum hætti þarf ekki að hafa mörg orð.


Langflestir fræðimenn átta sig á þessari stöðu en þó finnast menn sem kjósa að veifa röngu tré til að afvegaleiða umræðuna. Þar fer líklega fremstur í flokki Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur kosið að nota skilgreiningar sem hann fær frá FAO til að reikna ígildi styrkja til sjávarútvegs og styðst gjarnan við niðurstöður námsritgerða í háskólanum, þar sem hann er oftar en ekki leiðbeinandi sjálfur. Hvað um það, með þessum aðferðum fær hann meðal annars út að atvinnuleysisbætur til fiskverkafólks á tímum hráefnisskorts, sjómannafsláttur af tekjuskatti einstaklinga, kostnaður við rekstur opinberra stofnana í sjávarútvegi og ávinningur fyrirtækja af því að hafa fengið aflaheimildum úthlutað sé ígildi styrkja til sjávarútvegs.


Í grein sem hann birti í Morgunblaðinu síðasta laugardag notar hann eina slíka námsritgerð til að áætla um sjávarútvegstengd útgjöld ríkisins og segir að helstu útgjaldapóstar séu Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, landhelgishluti Landhelgisgæslunnar, vaktstöð siglinga, siglingadeild Samgöngustofu, Verðlagsstofa sjávarútvegsins, skrifstofa sjávarútvegs hjá matvælaráðuneyti, hafnabótasjóður, framkvæmdir við vita og hafnir og menntun sjómanna. Þórólfur viðurkennir reyndar að sumar þessara stofnana sinna fleiru en sjávarútvegi! Niðurstaða hans er: „Þegar búið er að taka tillit til þess losa sjávarútvegstengd útgjöld ríkissjóðs 10 milljarða króna skv. fjárlögum samþykktum fyrir árið 2023. Til samanburðar eru veiðigjöld vegna veiðiheimilda áætluð 8,6 milljarðar króna í fjárlögum ársins 2023. Lauslega og varlega áætlað vantar því 1,5 milljarða króna upp á að sjávarútvegurinn endurgreiði ríkinu útlagann kostnað.“


Það verður að segjast eins og er að það getur verið erfitt að skilja þessar æfingar prófessorsins því hann útskýrir hvergi hvernig hann fær þetta dæmi til að ganga upp. Ef þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaðan sjómann er það þá ríkisstyrkur? Ef Fiskistofa kaupir nýja dróna til að fylgjast með brottkasti, er það ríkisstyrkur? Ef Þórólfur ver mestum tíma sínum á prófessorslaunum til að skrifa um sjávarútveg, er það ríkisstyrkur? Ef hafnargarður er lengdur til að sinna þörfum farþegaskipa er það þá styrkur við sjávarútveginn? Þetta eru dæmi um hugarleikfimi prófessorsins sem engin leið er að fá til að ganga upp. Væri til of mikils mælst að hann kláraði þá sjálfur að reikna dæmið og útskýra nákvæmlega hvar í undangengnum fullyrðingum hann getur stuðst við tölfræðileg gögn og svarað um leið einhverjum af þeim spurningum sem hér eru settar fram.


Að lokum má benda á að starfsemi stofnunar eins og Hafrannsóknarstofnunar er að rannsaka lífríki sjávar og vatna á heildstæðum grunni. Með sameiningu við Veiðimálastofnun voru rannsóknir á ám og vötnum færðar undir sömu stofnun. Hafrannsóknarstofnun, sem er rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna, hefur því vísindalega ábyrgð á öllu þessu lífríki og veiðiráðgjöf sem slík aðeins hluti starfseminnar þó vissulega sé hún mikilvæg. Hvað þetta kemur ríkisstyrkjum til sjávarútvegs við er erfitt að sjá.


Ekki er langt síðan ég stóð í umræðu við Þórólf um meintar rangfærslur í bókhaldi sjávarútvegs og nú bítur hann höfuðið af skömminni með fullyrðingum um að sjávarútvegur á Íslandi sé ríkisstyrktur. Væri ekki nær að ræða staðreyndir máls en ekki staðlausar fullyrðingar? Það hæfir ekki prófessor við Háskóla Íslands að halda úti blaðamennsku gulu pressunnar.

Birt í MBL 2 september 2023

3 views0 comments

Comentários


bottom of page