top of page
Search

Veruleikinn og veiðiráðgjöf byggð á vísindum

Updated: Oct 11, 2022

“Það er mikilvægt að efla rannsóknir á nytjastofnum því óvissan er mikil um stærð stofna og framtíð veiða því óljós. “Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er grundvöllur þeirra tekna sem við höfum af sjávarútvegi og því er mikið í húfi. Veiðiráðgjöf er byggð á viðamiklum rannsóknum Hafrannsóknastofnunar og gögnum um sögu fiskistofna síðustu áratuga. Vistkerfarannsóknir eru ung vísindagrein en hafa ekki þróast eins hratt og mikið og við höfum séð innan annara geira.


Reglulega heyrum við sjómenn fullyrða að meiri fiskur sé í sjónum en veiðiráðgjöfin segir til um en fiskveiðistjórnunarkerfið byggist á því að treysta vísindum Hafrannsóknarstofnunar sem aftur eiga að byggjast á traustum gögnum og úrvinnslu þeirra. Þess mikilvægra er að það starf sé eflt og styrkt, sérstaklega þar sem við erum stöðugt minnt á að óvissan er mikil. Hér skulu nefnd nokkur dæmi.


Nú hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) lagt til að veiðar á kolmunna verði auknar um 81% á næsta ári. Sannarlega jákvæðar fréttir en vekja um leið undrun. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, bendir á það í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir jákvæðar fréttir komi þessi aukning í kolmunna á óvart þar sem að veiðin úr þessum stofnum hefur verið meiri en tillögur vísindamanna undanfarin ár. Gunnþór bendir á að kolmunnastofninn hafi stækkað um rúm 80% þrátt fyrir of mikla veiði, vel að merkja, sú veiði er umfram ráðgjöf vísindamanna. Hægt er að taka undir með Gunnþóri um að það þurfi að auka vísindalega þekkingu á þessum stofnum til að veiðiráðgjöfin fái undirstöðu í rannsóknum og útgerðin hafi meiri öryggi um að ráðgjöfin sé rétt og fyrirsjáanleg.

Rannsóknir á humri

En það er ekki aðeins að það þurfi að efla rannsóknir á kolmuna. Nauðsynlegt er að styrkja rannsóknir á humri sem hefur lengi verið mikilvægur nytjastofn hér við land. Útflutningsverðmæti humars fór yfir 3,5 milljarða kr. fyrir tíu árum en eru engin núna.


Undanfarin ár hefur humarkvótinn farið niður á við og núna hafa humarveiðar verið stöðvaðar með öllu næstu tvö árin. Það er sem gefur að skilja mikið áfall fyrir þau fyrirtæki sem treyst hafa á humarveiðar eins og kom fram í viðtali við Viðar Elíasson útgerðarmann og fiskverkanda í Vestmannaeyjum í liðinni viku. En á sama tíma og veiðar eru aflagðar kemur í ljós að það eru litlar rannsóknir stundaðar á humri. Útgerðarfélögin Skinney, Vinnslustöðin og Rammi tóku sig því til og kostuðu Hafrannsóknastofnun til rannsókna á humri til að fá einhverja innsýn í ástandið. Gerðu félögin þetta þar sem ekki voru nægir fjármunir til þess hjá stofnuninni.

Endurmat á karfastofninum

Við hjá Bláa hagkerfinu erum þátttakendur í stofnum félagsins Maris Optimum sem hefur það meðal annars að markmiði að leggja sjálfstætt mat á stærð stofna. Maris optimum hefur til dæmis lagt mat á stofnstærð gullkarfa hér við land á grunni gagna frá Hafrannsóknastofnun, enda er karfinn mikilvæg tegund og margt óljóst um vistfræði hans og stofnstærð. Við þær athuganir komu fram aðrar niðurstöður um fjölda fiska í stofninum sem eru áhugaverðar. Lítið hefur breyst varðandi aðferðafræði útreikninga á síðustu árum og mikilvægt að meira sé lagt í þá vinnu.

Þeir sem koma að sjávarútvegi hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að efla rannsóknir hér við land og um leið að styrkja sjálfstætt rannsóknarstarf til að hleypa fleiri sjónarmiðum að og auka umræðu sem er jú forsenda alls vísindaleg starfs. Þessi dæmi sem hér hafa verið týnd til sýna mikilvægi þess að efla og styrkja rannsóknir á hafi, lífríki og stofnstærð nytjafiska hér við land.


Útflutningsverðmæti sjávarafurða fer yfir 300 milljarða kr. í ár og er sjávarútvegurinn einn af okkar mikilvægu atvinnuvegum. Út frá lestri fjárlaga og skoðun á verksviði Hafrannsóknastofnunar má áætla að vel innan við tveir milljarðar kr. fari til rannsókna á nytjastofnum okkar. Það er vel innan við prósent af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Það væri góð leið til sátta um sjávarútveginn ef við eflum hann með rannsóknum og bætum við þekkingu okkar á hafinu. Þannig skilum við auðlindunum í enn betra ástandi til næstu kynslóða.


15 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page