Tvær þjóðir við sjóinn, en tvær ólíkar sögur
- Svanur Guðmundsson

- Oct 24
- 3 min read
“Við sýnum ekki nógu mikið af þeirri merku sjósögu sem hefur mótað þjóðina – kominn er tími til að breyta því.”
Í september síðastliðnum hjólaði ég suður með vesturströnd Portúgals frá Porto til Lissabon. Vegna landslagsins, loftslagins og menningarinnar var ferðin mikil upplifun. Víða meðfram ströndinni og í litlum þorpum sáust listaverk sem tengdust sjófarendum, fiskum og fiskréttum. Í bæ eftir bæ birtist sagan í list tengdri sjávarútvegi, á flísum og styttum; á torgum, götum og byggingum. Allt endurspeglaði þetta þá virðingu sem Portúgalar hafa fyrir eigin sögu og tengslum við hafið. Þarna er sjórinn ekki aðeins náttúruauðlind heldur hluti af sjálfsmyndinni, sögu og menningu þjóðarinnar.
Fiskurinn, sjómennirnir og arfleifðin eru hvarvetna hafin til vegs og virðingar. Fiskréttir eru bornir fram með stolti eins og hver önnur menningarverðmæti. Þegar ég hins vegar hugsaði til Íslands, fiskveiðiþjóðar sem reisti samfélagið úr örbirgð til auðlegðar á sjósókn, varð samanburðurinn óþægilegur. Vissulega bera veitingamenn hér fram stoltir íslenskan fisk og reist eru minnismerki um týnda sjómanninn en ekki saman að jafna upplifuninni.
Saga sem við felum í stað þess að fagna
Á Íslandi hefur sjávarútvegurinn tryggt afkomu, sjálfstæði og þróun þjóðarinnar. Hann er ekki aðeins atvinnugrein, heldur undirstaða þess að hér byggðist upp samfélag við norðurjaðar Evrópu. Þrátt fyrir þetta virðumst við líta niður á söguna okkar. Við tölum sjaldan um árangurinn. Að slys sjómanna eru nú fátíð, að við nýtum fiskinn betur en flestar aðrar þjóðir og að við höfum byggt upp eitt þróaðasta fiskveiðistjórnunarkerfi heims. Í stað þess er umræðan oft merkt neikvæðni um kvótakerfi, stórfyrirtæki og spillt vald. Þeir sem ruddu brautina að sjálfbærum veiðum og náðu árangri í rekstri eru oftar dregnir niður en hafnir upp til virðingar.
Á meðan Portúgal nýtir söguna til að styrkja sjálfsmynd og vitund um menningu þjóðarinnar virðumst við Íslendingar forðast að ræða okkar eigin. Þeir bera stoltir fram sína fiskrétti en við drögum í efa þróaðar fiskveiðar, hagkvæm fyrirtæki og hátæknivinnslur. Portúgalir hafa skráð Alto Douro-vínhéraðið á heimsminjaskrá UNESCO en við hikum við að sækja um skráningu íslenskrar fiskveiðilögsögu þó bæði menningar og efnahagsrök kalli á það. Alþjóðleg viðurkenning á sjálfbærum veiðum og gagnadrifinni auðlindastýringu myndi ekki aðeins styrkja ímynd Íslands, heldur einnig nýtast sem verkfæri í markaðssetningu og útflutningi sjávarafurða.
Tengingin skýr í Aveiro
Í Aveiro, lítilli hafnarborg suður af Porto, fann ég skýrt þessa tengingu. Borgin lifir og andar með sjónum; saga hennar byggir á saltvinnslu og fiskþurrkun eins og í gömlu sjávarplássunum heima. Þarna hefur fiskur verið saltaður, þurrkaður og sendur út í heim um aldir. Þorskur frá Íslandi hefur lengi ratað til Portúgals, saltaður og þurrkaður og verður að helgisið í eldhúsum landsins undir nafninu bacalhau.
Þessi viðskipti eru meira en verslun, þau eru menningarbrú. Fiskurinn tengir þjóðirnar þótt hann sé fluttur yfir Atlantshafið. Hann leggur til matarhefðir, siði og félagslíf. Hann minnir á að það sem við flytjum út er meira en tonnatölur og markaðsverð, það er menning.
Hvað ef við breytum viðhorfinu?
Það er ekkert óeðlilegt við gagnrýni en það má og á að halda sögu okkar á lofti með reisn og virðingu. Við eigum að segja sögur, ekki aðeins um hetjurnar á sjó, heldur líka um þá sem byggðu upp kerfi sem tryggði sjálfbærni, fagmennsku og hámörkun verðmæta. Við ættum að kenna þessa sögu í skólum, í myndlist og í almannarými rétt eins og gert er í Portúgal. Hvers vegna gerum við það ekki? Setjum upp eitthvað sem minnir á tengsl okkar við sjóinn við hafnir og í miðbæjum þar sem saga fólksins, skipanna og aflans er sögð. Gerum hafið sýnilegra í skólastarfi, allt frá uppruna máltíðar til tækni og vísinda. Búum til samtal menningar og atvinnulífs með sýningum, matarhátíðum og kynningum á starfsgreinum og nýtum listina markvisst til að draga fram nútímasögu sjávarútvegs, ekki aðeins rómantíska fortíð?
Við gætum jafnframt sótt um að íslenska fiskveiðilögsagan verði skráð á heimsminjaskrá UNESCO með vísun í það sem þeir gera í Alto Douro-vínhéraðinu. Slík skráning væri táknræn viðurkenning, ekki aðeins á auðlindinni, heldur á menningunni sem skapaðist í kringum hana. Þá yrði ekki aðeins minnst þeirra sem réru til fiskjar, heldur líka þeirra sem réru á móti straumnum og mótuðu kerfi sem margir telja meðal þeirra bestu í heimi.
Að ferðast aftur í tímann
Ferðin var ferðalag um menningu, sögu og sjálfsmynd þjóðar. Í Portúgal sá ég hvernig þjóð getur fagnað fortíð sinni án þess að afneita nútímanum. Þar sá ég hvernig saga hafsins og fiskanna getur verið lifandi hluti af þjóðarmenningu, ekki sár sem við reynum að fela. Ísland og Portúgal eru tvær þjóðir með sterka tengingu við sjóinn. En önnur ber söguna með stolti; hin talar hana niður eða þegir. Það er kominn tími til að snúa þessari þróun við. Við eigum arfleifð sem er þess verðug að henni sé sýnd virðing. Ekki vegna þess að hún sé fullkomin, heldur vegna þess að hún er okkar saga.





Comments