top of page
Search

Tökum forystu um vernd hafsins

Updated: Dec 29, 2022

"Upplýsum samfélög um sjálfbæra stjórnun auðlinda hafsins, til hagsbóta fyrir samfélög á strandsvæðum jarðar."

Áður en núverandi fyrirkomulag var tekið upp við stjórn á sjávarauðlindum Íslands voru veiðar óhagkvæmar, óarðbærar, ofveiði ríkjandi og margir stofnanna voru við það að hrynja. Því miður voru slys og mannskaðar algengir. Afskipti ríkisins voru tíð og umdeildar ráðstafanir algengar til að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti.


Staðan í dag

Í dag er myndin allt önnur. Sjávarútvegsfyrirtæki eru arðbær og greiða meiri skatta en önnur fyrirtæki í formi auðlindagjalda. Opinber afskipti eru nú aðeins í formi almennra reglna og engir styrkir eru veittir til veiða. Sjávarútvegur nútímans er hátækniiðnaður og hefur gengið vel að flytja út tækni sína. Sjávarútvegur Íslands hefur átt stóran þátt í að umbreyta hagkerfinu sem hefur gert Ísland að nútímalegu, samkeppnishæfu og útflutningsdrifnu velferðarsamfélagi. Ísland er leiðandi í heiminum í sjávarútvegstækni, menntun, þjálfun og rannsóknum, sjálfbærum fiskveiðum, búnaði, siglingatækni og fiskgreiningartækjum, auk þess að viðhalda háþróuðum sjávarútvegi og flytja út heimsklassaframleiðslu. Enn fremur hefur sjávarútvegurinn skapað fjölda sprota í snyrtivörum, tísku, heilsu og næringu, hugbúnaðargerð og lyfjum svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfbærar og ábyrgar veiðar á villtum fiskistofnum á Íslandsmiðum og góð meðferð á lífríki hafsins hefur grundvallarþýðingu fyrir íslenskt samfélag. Sjávarútvegurinn á Íslandi er að mæta kröfum kaupenda sjávarafurða um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins sem þróaðar eru á grundvelli skuldbindinga sem gerðar eru að landslögum og með alþjóðasamningum.


Bláa hagkerfið ehf.

er nýstofnuð íslensk þekkingarveita sem, eins og nafnið gefur til kynna, mun beina kröftum sínum að því að upplýsa samfélög um sjálfbæran sjávarútveg. Sérstaklega verður hugað að sjálfbærri stjórnun auðlinda hafsins, vistkerfisrannsóknum og hvernig hægt er að yfirfæra það í efnahagsbata til hagsbóta fyrir samfélög á strandsvæðum jarðar.

Bláa hagkerfið ehf. er að þróa verkfæri sem hefur fengið nafnið „Sustainable Fisheries“. Markmiðið er að setja saman hóp færustu einstaklinga og sérfræðinga sem starfað hafa innan sjávarútvegs, opinberrar þjónustu og innan fræðasamfélagsins. Markmiðið er að nýta sér þá miklu reynslu sem hefur safnast upp við þróun okkar farsæla fiskveiðistjórnarkerfis á Íslandi. Það er sannfæring okkar sem stöndum að verkefninu að nota megi íslensku fyrirmyndina, þegar kemur að sjálfbærri fiskveiðistjórnun, sem grundvöll arðsemi í sjávarútvegi og það sé hægt að innleiða hjá þjóðum sem eru í svipaðri stöðu og við vorum þegar við töldumst til vanþróaðra þjóða.

Útflutning þekkingar okkar á fiskveiðistjórnun verður að nálgast á heildstæðan hátt. Það verður að nýta reynslu okkar og sérþekkingu varðandi stjórnun veiða, vinnslu og markaðssetningu takmarkaðra auðlinda með eftirlitsstofnunum og opinberri stjórnun. Við þurfum að þróa sveigjanlega forskrift fyrir alhliða fiskveiðistjórnunarkerfi sem hægt væri að laga að mismunandi aðstæðum og raungera í hentugum samstarfsríkjum. Það sem við höfum í huga eru lönd sem eru í svipaðri stöðu og Ísland var fyrir nokkrum áratugum. Þetta gæti verið öflugt tæki sem aðstoðar samfélög við að nýta þá tækni sem þau hafa yfir að ráða og bæta þannig fiskveiðistjórnun þeirra og sjávarútveg almennt. Mikilvægt er að þetta sé gert á þann hátt að viðkomandi lönd geti þróað og innleitt tækni og menntun í samvinnu við fyrirtæki sín og geti þannig fengið nýja tækni, þó á þann hátt sem samsvari ástandi hvers lands.

Nauðsynlegt er að tryggja að samstarf um miðlun þekkingar hjá Bláa hagkerfinu fari fram með þátttöku opinberra aðila, atvinnulífsins og fræðasamfélagsins sem og annarra sem koma að verkefninu.

Almenn staða erlendis

Staða fiskistofna í heiminum er mikið áhyggjuefni svo og ástand hafsins. Arðrán stóru samfélaganna eins og Kína og Evrópusambandsins á fiskistofnum og stuðning við óarðbærar veiðar, þrátt fyrir hættuástand fiskistofna, þarf að stöðva. Víða þrífast óheilbrigðir viðskiptahættir í kringum viðskipti með veiðiheimildir. Oft leiðir það til ofveiði fiskistofna á kostnað staðbundinna veiða innlendra sjómanna og minnkandi veiði hjá þeim. Innviðir brotna niður en ríkisstjórnir fá fátækrastyrki fá alþjóðastofnunum í býtti fyrir veiðiheimildir og greiðslur fyrir þær. Þessu þarf að breyta um leið og fátækari samfélög fá leiðbeiningar um aðrar hagkvæmari leiðir. Þannig þarf að byggja samfélög upp innan frá.

Rétt er að árétta að þetta verkefni verði í takt við sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SDG) # 8 og # 14. Enn fremur tengist það öðrum SDG-markmiðum #2, # 5, # 6, # 9, #10, #12 og # 17.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2020

25 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page