top of page
Search

Sterkir á útivelli - slakir á heimavelli

Íslenskur sjávarútvegur nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi þrátt fyrir smæð sína. En hér á landi ríkir vanþekking um stöðu sjávarútvegs.

Fyrir stuttu lauk einni stærstu sjávarútvegssýningu heims í Barselóna á Spáni. Haldnar eru þrjár sýningar á ári á vegum Seafood Expo. Ein í Boston, önnur í Singapúr og svo í Barselóna en hún er stærst og hugsuð fyrir allan heiminn. Sýningarsvæðið í Barselóna er 200.000 fermetrar og komast þar fyrir nærri 2.000 sýnendur. Þar voru íslensk fyrirtæki fyrirferðamikil enda komin saman nær öll virðiskeðja íslensks sjávarútvegs. Þar var að finna útgerðafyrirtæki, framleiðendur, tæknifyrirtæki, fisksala, flutningafyrirtæki og aðra þá er hafa sjávarútveg sér til viðurværis, allstaðar að úr heiminum.

Virðing á erlendri grundu

Stærð og umfang sýningarinar staðfesti mikilvægi sjávarútvegs í heiminum og þarna voru margir mikilvægir samningar innsiglaðir. Það leyndi sér ekki þegar gengið var um svæðið að íslenskur sjávarútvegur nýtur mikillar virðingar og athygli. Ekki aðeins vegna gæða hráefnis og vöruvöndunar heldur ekki síður vegna hás tæknistigs, mikillar framleiðni og er óhætt að segja að íslensk fyrirtæki séu í fararbroddi. Bæði þau sem stunda veiðar, vinnslu, sölu og markaðsetningu en ekki síður þau fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn. Margir erlendir sýnendur höfðu þjóðfána sína áberandi en allir íslensku básarnir, þar með talin Íslandsstofa, lögðu lítið uppúr því að hafa íslenska fánann sjáanlegan.


Stærð básanna sem fyrirtækin lögðu undir sig var ekki í samræmi við stærðir fyrirtækjanna. Norska fyrirtækið Mowi var skammt frá íslensku básunum og var með minna svæði en íslenska sölufyrirtækið ISI en Mowi er stærra í veltu en allur íslenskur sjávarútvegur. Ég set inn til gamans mynd af stærðum nokkurra erlendra sjávarútvegsfyrirtækja, eins og þau voru fyrir 2 árum, svona til að sjá samanburð við allan útflutning íslensks sjávarúvegs.Á myndinni eru bornar saman tekjur stærstu fyrirtækja heims í sjávarútvegi árið 2021 og allar útflutningstekjur Íslands af sjávarútvegi. Þarna eru ekki rússnesku fyrirtækin sem voru ekki sjáanleg á sýningunni eins og gefur að skilja.


Það var ánægjulegt að sjá að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, var meðal gesta á sýningunni alla dagana og virtist hún kynna sér hana vel um leið og hún ræddi við stjórnendur og starfsmenn í íslenskum sjávarútvegi. Oft virðist manni sem gagnrýni á íslenskan sjávarútveg byggist á þekkingarleysi og ekki var annað að sjá en matvælaráðherra legði sig fram við að setja sig inn í málin úti í Barselóna. Því ber að fagna.

Þekkingarleysi og meint spilling

En Barselónaför ráðherra kemur í kjölfar þess að ráðuneyti hennar réðist í gerð allóvenjulegrar könnunar um íslenskan sjávarútveg þar sem meðal annars var spurt um spillingu. Ekki er vitað til þess að aðrar starfsgreinar séu settar undir slíkt mæliker í könnunum sem eru skipulagðar og kostaðar af stjórnarráðinu. Um leið sýndi könnunin að einungis fjórðungur þjóðarinnar telur sig búa yfir einhverri þekkingu á sjávarútvegsmálum. Það er umhugsunarvert.


Hugsanlega er þetta tímanna tákn, þrátt fyrir allt vinna færri og færri í sjávarútvegi og mikilvægi hans minnkar samfara því sem öðrum atvinnugreinum vex ásmegin. En samfara minni þekkingu á sjávarútvegi verður meiri aðskilnaður milli þeirra sem þar starfa og þeirra sem telja sig hafa skoðun á honum. Inn í það bil sigla pópúlistar umræðunnar, stjórnmálamenn sem telja sig hafa hag af því að nýta sér þetta þekkingaleysi sjálfum sér til pólitísks ávinnings.


Matvælaráðherra lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að könnunin væri góður stuðningur við þá vinnu sem ráðuneytið hefði verið að sinna undanfarin misseri í tengslum við stefnumótun í sjávarútvegi undir merkjum „Auðlindin okkar“. Sagði hún að þar væri meðal annars leitast við að skapa aukna sátt um sjávarútveg á grundvelli upplýstrar umræðu og endurskoðunar á kerfinu. Uppleggið á könnuninni fær mann til að halda annað. Um leið og við sjáum að þekking er styrkur sjávarútvegsins á alþjóðlegum vettvangi verðum við vör við að sumir stjórnmálamenn vilja gera út á þekkingaleysi almennings hér heima. Því verður að breyta.

12 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Kommentare


bottom of page