Það er því undarlegt að fá sérfræðing að sunnan með dylgjur og gróusögur og hvetja til þess að henda málningu í blöðrum á stofnanir landsins.
Fyrir 15 árum urðu þau merku tímamót að í fyrsta skipti drukknaði enginn sjómaður við Íslandsstrendur. Til þess að gera var hljótt um þau tíðindi vegna hruns nokkurra banka sama ár. Árið 2011 gerðist þetta aftur, enginn sjómaður drukknaði og nú er svo komið að sjóskaðar eru fátíðir. Þetta er til marks um þær breytingar sem hafa orðið í útgerð eins og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Allstaðar hefur orðið framþróun og breyting.
Ég fæddist skömmu eftir miðja síðustu öld og lifði í heimi sjómennsku og útgerðar enda faðir minn sjómaður og útgerðamaður og allir fórum við bræður á sjó. Sama átti við um forfeður mína, þeir sem ekki stunduðu sjómennsku voru bændur nema menn gerðu hvoru tveggja. Sjálfur hef ég unnið við sjávarútveginn frá barnæsku. Sjálfsagt yrðu forfeður mínir hissa yfir þeirri breytingum sem sem orðið hafa á sjávarútvegi sem og flestum þáttum íslensks samfélags. Mest hissa yrðu þeir þó ef þeir hefðu orðið að hlusta á kampavínssósíalista að sunnan ávarpa þá á sjálfum sjómannadeginum og hvetja þá til byltingar!
Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ávarpaði sjómenn og fjölskyldur þeirra í Grindavík á sjómannadaginn. Margt í ræðu hans vekur furðu en hún hefur fengið nokkra athygli. Í ræðu sinni sagði hann útgerðir landsins vera glæpafélög sem níðast á sjómönnum, hýrudragi þá með tilstyrk félaga í útlöndum en setur reyndar þann fyrirvara að hann viti ekki hvort þetta sé satt eða logið. Mér finnst augljóst að það hefur verið logið að Kára en það aftrar honum ekki að fara í kjól Gróu frá Leiti. Þegar ummæli Kára eru skoðuð sést að hann er fastur í þeirri hugsun að í raun hafi ekkert breytst í sjávarútvegi á meðan staðreyndin er sú að allt hefur breyst nema hans eigin ranghugmyndir. Það er ekki gott að ala með sér reiði og gremju en fjárfestingaævintýri Kára, sem kostuðu bæði einstaklinga og lífeyrissjóði háar upphæðir, sitja þó í mörgum.
Ótrúlegar breytingar
En hvað veldur þessari breytingu, af hverju tekur sjórinn ekki lengur sinn toll? Útgerð hefur breyst gríðarlega hér á landi og ekki síst síðustu áratugi vegna kvótakerfisins. Kvótakerfið gerði það að verkum að útgerðum var kleift að stýra sókn sinni miklu betur og þörfin fyrir að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er hvarf. Um leið stækkuðu skipin og sérhæfing jókst. Sjómennskan varð smám saman að meira fagi þar sem hver og einn um borð hafði skilning og þekkingu á sínu starfi og þeim hættum sem því fylgdi. Um leið og skipin urðu tæknivæddari og stærri voru öryggismálin tekin fastari tökum. Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var árið 1985, hefur gengt þar stóru hlutverki. Sjómenn og fiskverkafólk geta núna skipulagt frítíma sinn með fjölskyldum sínum og geta gengið að því vísu að hafa vinnu allt árið.
Breytingarnar eru í raun ótrúlegar. Árið 1941 er mesta slysaárið, sem um getur á 20. öldinni, en það ár fórust 139 lögskráðir íslenskir sjómenn. Á milli áranna 1971 og 1980 fórust 203 sjómenn. Á milli 2001 og 2010 fórust hins vegar 21 sjómaður, árin 2011-2020 fórust 8 en nú eru banaslys fátíð þó enn megi gera betur til að fyrirbyggja slys. Nú farast fleiri tengdir ferðaþjónustu en sjávarútvegi. Þegar nýjustu og stærstu fiskiskip íslenska flotans eru skoðuð sést að aðstæður eiga ekkert skylt við það sem áður var. Um 2000 skip og bátar eru skráð á Íslandi, flest fiskiskip, en um 3000 manns hafa atvinnu af sjómennsku hér á landi. Þessi hópur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir efnahag landsins enda sjómenn vel launaðir og mikilsvirtir þátttakendur í íslensku efnahagslífi
Sjómannadagurinn hefur verið hátíðardagur í sjávarbyggðum landsins þar sem menn heiðra aldna sjómenn og minnast þeirra sem hafa fallið frá. Margt er gert til hátíðarbrigða, börnum eru kynnt starf feðranna og gjarnan boðið upp á siglingu og fiskiskipin skarta sínu fegursta. Fánar eru dregnir að húni, farið í reipitog, koddaslag og stakkasund, svo fátt eitt sé nefnt. Það er því undarleg sending að fá sérfræðing að sunnan til að messa yfir saklausum áhorfendum, flytja dylgjur og gróusögur og hvetja sjómenn að endingu til þess að henda málningu í blöðrum á stofnanir landsins.
Það er því hálf ankanalegt að hlusta á slíka fortíðarþrá, sögumisskilning og almennt bull sem Kári bauð uppá á sjómannadaginn í Grindavík. Vonandi að lækning finnist við því sem hrjáir hann áður en stefnir í óefni.
Grein birtist í morgunblaðinu 10 júní 2023
Comments