top of page
Search

Samþjöppun í sjávarútvegi?

Við kvótasetningu aflaheimilda var það höfuðmarkmið að hagræðing ætti sér stað við veiðar. Allir áttuðu sig á því að það var lífsnauðsyn fyrir rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs. Því er það svo að sameiningar og samstarf liðinna áratuga í sjávarútvegi hafa leitt til mikillar hagræðingar og veiðar og vinnsla smám saman orðið arðbærari eftir því sem hagræðingin verður meiri. Það er oft þannig að við sjáum ekki það sem er beint fyrir framan okkur. Ekki er langt síðan Dag Sletmo, aðstoðarframkvæmdastjóri DNB bankans i Noregi, kom með mikilvæg skilaboð til okkar Íslendinga.. Sletmo ber ábyrgð á greiningu strauma og stefna í sjávarútvegi og kortlagningu hans í Noregi. Sletmo ræddi um helstu tækifæri og áskoranir í íslenskum sjávarútvegi og sagði m.a. að íslenskur sjávarútvegur væri í dag talinn vera nokkurs konar Sílíkondalur sjávarútvegs í heiminum þegar kemur að nýjungum, framleiðni, tækni og nýsköpun. Allt er gert með hagræðingu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Vegna umræðu um samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík er ástæða til að skoða upplýsingar um hlutfallsstærðir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og bera það saman við aðrar starfsgreinar og stöðu íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna á alþjóðavísu.

Stærðir sjávarútvegsfyrirtækja

Undirritaður hefur undir höndum ársreikninga nærri 900 félaga í íslensku efnahagslífi, og gögn um nærri öll íslensk sjávarútvegsfyrirtæki landsins, svo og yfirlit yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims. Byggt á þeim upplýsingum er ágætt að skoða hver sé hlutfallsleg stærð fyrirtækja samanborið við aðra markaði, til dæmis matvörumarkaðinn hér á landi svo eitthvað sé valið.

Á mynd 1, sem fylgir þessari grein, má sjá hlutfall tekna 39 sjávarútvegsfyrirtækja í landinu byggt á ársreikningum áranna 2020 eða 2021, hverju sinni er stuðst við nýjasta ársreikninginn sem liggur fyrir. Umrædd íslensk fyrirtæki í gagnagrunninum eru samtals með veltu upp á nærri 350 milljarða kr.


Mynd 1: 39 Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki meðyfir milljarð í veltu og hlutfallsleg stærð þeirra

Á myndinni birtast upplýsingar um hlutfallslega stærðir stærstu fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi. Fyrirtæki sem tengjast og eru að sameinast eru sett inn í móðurfélagið eins og Vísir hf. og Berg Huginn hf. inn í Síldarvinnsluna hf., Ögurvík hf. inn í Brim hf. og ÚA og fiskeldi Samherja inn í Samherja hf. Þessi þrjú fyrirtæki geta ekki orðið mikið stærri hér heima þegar kemur að veiðiheimildum því lögin um stjórn fiskveiða eru með svokallað kvótaþak. Sú ákvörðun að kvótaþakið skyldi miðast við 12% heildarkvótans var hugdetta þáverandi sjávarútvegsráðherra. Ekki verður séð að hún hafi byggst neinum útreikningum eða rannsóknum, eingöngu virðist hér um stjórnvaldsákvörðun að ræða, án nokkurra raka eða útskýringa. Þetta er bara svona. Menn ættu að hafa það í huga þegar rætt er um kvótaþakið.

Velta á matvörumarkaði

En þegar fjallað er um samþjöppun á markaði er ekki víst að allir átti sig á því að 98% af tekjum umræddra sjávarútvegsfyrirtækja koma frá erlendum mörkuðum. Sé horft til þess að þau eru ekki á innlendum neytendamarkaði mætti ætla að Samkeppniseftirlitið gæti verið tiltölulega fljótt að afgreiða skoðun sína. Sést það vel á mynd nr. 2 en Samkeppniseftirlitið hefur einmitt samþykkt þá samsetningu matvörumarkaðar hér á landi sem þar birtist.

Á myndinni má sjá hlutfallslega skiptingu alls matvörumarkaðar á milli fyrirtækja samkvæmt tölum frá 2021. Sex aðilar eru með mest allan markaðinn, þrír eru þar langstærstir. Já, aðeins þrír aðilar og hér er um að ræða alla sölu matvæla til íslenskra heimila.Mynd 2: Hlutfallsleg skipting fyrirtækja með matvörumarkaðinn árið 2021.

Matvörusalan hér á landi var 220 milljarðar kr. árið 2021 og aðrir smærri seljendur (græni reiturinn) á þessari mynd eru aðeins með rúmlega 10 milljarða sölu. Þannig að 95% af sölu matvöru til heimila landsmanna er í höndum sex fyrirtækja.

Stærðir erlendra sjávarútvegsfyrirtækja

Til að setja þetta í enn frekara samhengi þá er íslenskur sjávarútvegur í harðri samkeppni við sjávarútvegsfyrirtæki um allan heim. Þar má finna gríðarstór fyrirtækin og það stærsta, Maruha Nichiro, var með veltu upp á nærri eitt þúsund milljarða kr. árið 2021. Samanlögð velta íslensku fyrirtækjanna, sem eru í þessum samanburði, er nærri 350 milljarðar kr. eins og áður sagði. Þetta eru hinar raunverulegu staðreyndir málsins þegar samkeppni og samþjöppun íslensks sjávarútvegs eru skoðuð.Mynd 3: Hlutfallsleg stærð 11 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims og samanlögð velta 39 fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi.

Mynd 3 er byggð á upplýsingum úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja áranna 2020 og 2021 bæði hér og erlendis. Samanlögð velta 39 stærstu íslensku fyrirtækjanna nær að setja þau í níunda sæti meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims. Án efa eru fleiri erlend fyrirtæki til sem ættu að vera á þessari mynd en þau eru staðsett í Kína, Rússlandi eða skráð á aflandseyjum og því nær ómögulegt að fá upplýsingar um þau. Upplýsingar um íslensku fyrirtækin eru vel skráðar og opnar öllum almenningi, því getur hver sem vill borið þetta saman og skoðað..

Það er borin von að við náum vopnum okkar á alþjóðamarkaði ef að stjórnmálamenn hér heima hafa það að meginmarkmiði að hindra hagræðingu í rekstri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Sú samkeppni sem er framundan við alþjóðleg risafyrirtæki kallar á breytingar ef við ætlum að tryggja áfram þá góðu stöðu sem við höfum nú. Skráð almenningsfyrirtæki eins og Síldarvinnslan eru líkleg til að leiða þær breytingar eins og sést af kaupum þeirra á Vísi í Grindavík.

27 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page