top of page
Search

Reykjavíkur yfirlýsingin 2001: Rætur “lífs undir vatni”

Ísland lagði grunn að SDG 14 með Reykjavíkuryfirlýsingunni – nú þarf að endurvekja alþjóðlega forystu okkar í vistkerfisstýrðri auðlindanýtingu.

Í september árið 1987 kynnti Gro Harlem Brundtland og Heimsnefndin skýrslu sem sem breytti viðhorfum heimsins til samspils umhverfis og samfélagslegrar þróunar. Þar kom fram sú grundvallarhugmynd að framtíðarkynslóðir ættu rétt á þeim auðlindum sem við nýtum í dag. Þetta var í senn siðferðileg yfirlýsing og stefnumótandi markmið, sem átti eftir að leiða til samþykktar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2015 (SDG).

Reykjavíkurráðstefnan 2001 – þar sem sýnin varð stefna




Þar ber hæst SDG 14 – Life Below Water – sem á að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu sjávarvistkerfa. En fáir vita að þessi stefna á rætur sínar að rekja til Íslands. Það var á Reykjavíkurráðstefnunni árið 2001 sem  þessi sýn var í fyrsta sinn fest í sameiginlega yfirlýsingu. Þar var vistkerfisstýring – ecosystem-based fisheries management – skilgreind sem nauðsynleg grunnstoð fyrir framtíð hafsins. Yfirlýsingin var ekki orðin tóm. Með henni var samþykkt lýsing á breyttri heimsmynd og endurmati á hlutverki mannsins gagnvart hafinu.

Fulltrúi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) Jacques Diouf, þáverandi framkvæmdastjóri, flutti opnunarræðu og sagði í ræðu sinni í Reykjavík: „Ef við fylgjum ekki þessum meginreglum, verður veröld hafsins áfram í uppnámi – en ef við höldum áfram á þessari braut sem hér er mörkuð, getum við endurreist trú á möguleikum vistkerfa til að þola nytjar.“  Í ræðu sinni benti hann á að fyrri hugmyndir um ótæmandi auðlindir hafsins hefðu reynst rangar og hvatti til aðgerða til að innleiða árangusrík fiskveiðistjórnunarkerfi. Hann lýsti ráðstefnunni sem „áfanga“ í átt að samstöðu um ábyrga nýtingu sjávarvistkerfa og vonaðist til að hún myndi veita leiðsögn um hvernig bæta mætti stjórnun veiða á heimsvísu. Þetta var ekki aðeins viðvörun – heldur viðurkenning.Ísland lék lykilhlutverk í að móta alþjóðlega sýn á heildstæða auðlindastjórnun.

Frá hugmynd til framkvæmdar – íslenskt fordæmi

Það kemur til af því að Ísland er eina landið sem á að baki samfellda framkvæmd fiskveiðistjórnunar í heila tvo áratugi. Sú staðreynd að allar helstu nytjategundir eru í dag nýttar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar, þar sem vistkerfi eru metin heildrænt, hefur ekki verið á móti mælt – en heldur ekki haldið nægilega á lofti.

Við stöndum nú á tímamótum. Árið 2026 verða liðin 25 ár frá því að Reykjavíkuryfirlýsingin var samþykkt. Við höfum náð þeim árangri sem aðrar þjóðir geta aðeins látið sig dreyma um að stefna  að – við höfum þegar uppfyllt 30/30 markmiðin sem COP15-ráðstefnan í Montreal lagði til: 30% verndarsvæði og 30% sjálfbær nýting helstu nytjastofna. Engin þjóð hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu fyrir þetta – ekki einu sinni í umfjöllun Sameinuðu þjóðanna sjálfra. Þetta er ekki aðeins ósanngjarnt – það endurspeglar vanmátt okkar sjálfra til að miðla árangrinum með nægjanlegum þunga.

Að nýta leiðtogahlutverk Íslands – áður en það glatast

Ísland hefur skyldu til að minna á þessi atriði. Ef við gerum það ekki sjálf, gerir það enginn fyrir okkur. Það þarf að endurvekja Reykjavíkuryfirlýsinguna með formlegum hætti. Ekki sem gamalt minnismerki heldur sem virka stefnu – Iceland 2030 Ecosystem Stewardship. Við þurfum að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem öll þau ríki sem telja sig fylgja vistkerfisstýringu koma saman og leggja fram mælanleg gögn. Íslensk stjórnvöld þurfa að gefa slíkri samkomu pólitískt vægi, kalla til FAO, ICES, UN Ocean Conference, og byggja á traustum grunni þess sem þegar hefur tekist.

Jafnframt er mikilvægt að vinna markvisst að því að miðla upplýsingum um þetta forystuhlutverk Íslands, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Enn er skortur á vitund meðal almennings hér á landi, hvað þá erlendis um þann árangur sem náðst hefur í sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda.

Endurvekjum Reykjavíkuryfirlýsinguna

Við þurfum að gera meira en að minna á þessa sögu. Við þurfum að nýta hana sem tæki til þess að leiða nýja stefnu í alþjóðlegum sjávarútvegsmálum. Með því að flytja hana aftur inn á borð heimsins, gætum við haft djúp áhrif á stefnumótun SÞ og FAO – og styrkt eigin stöðu sem leiðandi þjóðar í sjálfbærri nýtingu hafsins.

Annars gera aðrir það. Á fundum í Brussel og Genf eru nú að myndast nýir hópar sem segjast vilja leiða inn vistkerfisstýringu í alþjóðlegan sáttmála. Á ráðstefnum og samráðsvettvöngum í Brussel og Genf, eins og SEAwise ráðstefnunni 2025 og Geneva Blue Talks, eru nú mótaðir nýir alþjóðlegir samstarfshópar sem miða að því að festa vistkerfisstýringu í sessi sem stefnumótandi grundvöll alþjóðlegrar fiskveiðistjórnunar. En þessi hópar taka Ísland ekki með. Ef við látum Reykjavíkurráðstefnuna og framhaldsstarfið gleymast, þá munum við missa áhrifin – og þar með forystuna.

Við höfum val. Við getum annaðhvort stigið fram og sagt: hér hófst þetta starf og hér er árangurinn mestur. Eða setið hjá og séð aðra eigna sér heiðurinn af því að hafa fundið upp hugmynd sem við mótuðum. Það væri ekki aðeins sögufölsun – það væri vanræksla. Það má ekki gerast.



 
 
 

Recent Posts

See All
Þegar ríkið fer á sjóinn

Grænland rekur sjálft stærsta sjávarútvegsfyrirtæki sitt. Ísland skattleggur sína. Hvor leiðin gengur betur upp – og fyrir hvern? Þegar...

 
 
 

Comments


+354 8935055

  • facebook
  • twitter

©2020 by Bláa Hagkerfið. 

bottom of page