top of page
Search

Rannsóknir og hámörkun fiskveiðiauðlindarinnar

Eftir Svan Guðmundsson. | Aðsent efni í Morgunblaðið 9. nóvember 2021

"Það getur verið hagkvæmara fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn að veiða minna af loðnu en öll þessi 662 þúsund tonn."

Rannsóknir á lífríki sjávar skipta okkur Íslendinga gríðarlega miklu. Við byggjum fyrirkomulag fiskveiða hér við land á vísindum sem byggjast á öflun gagna, mælingum og rannsóknum sem að lokum leiða til vísindalegrar ráðgjafar. Þetta fyrirkomulag hefur gefist okkur að mörgu leyti vel en eðlilega er það til sífelldrar umræðu og endurmats. Það er ekkert leyndarmál að sjómenn og útgerðarmenn hafa gert margvíslegar athugasemdir við þetta í gegnum tíðina þótt þeir í aðalatriðum sætti sig við fyrirkomulagið enda byggist fiskveiðistjórnunarkerfið á því. Við getum kallað þetta sátt sem býr við málefnalega andstöðu. En það er mikilvægt að endurskoða stöðugt þetta fyrirkomulag. Við hjá Bláa hagkerfinu ehf. réðumst í að gera úttekt á stofnmati á karfa og grálúðu. Um þessar mundir er unnið að því að kynna niðurstöðu skýrslunnar fyrir hagsmunaaðilum. Það er rétt að taka fram að enginn opinber aðili óskaði eftir þessari skýrslu né studdi gerð hennar en unnið var með upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun. Ástæða er til að þakka starfsmönnum þar fyrir samstarfið sem skipti miklu. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi þótt ekki kæmu þær á óvart, síst vísindamönnum Hafró. Þar fögnuðu þeir þessari skoðun á vinnu sinni og tóku undir ýmislegt af því sem kemur fram í skýrslunni.


Ónógar rannsóknir

Meginniðurstaða skýrslunnar er að mjög skortir á að við vitum til fullnustu hvert er ástand og horfur þegar kemur að karfa- og grálúðustofnunum. Það er einfaldlega af því að rannsóknir eru ekki nægar. Fyrir vikið er úthlutað aflamarki í þessum tegundum eftir ýtrustu varúðarsjónarmiðum sem getur kostað þjóðarbúið umtalsverða fjármuni. Þetta gerist þrátt fyrir að stofnmat veiðistofna okkar sé unnið eftir bestu vísindalegri þekkingu á hverjum tíma en markast þó ávallt af þeim takmörkuðu fjárveitingum sem varið er til rannsókna. Engum dylst að hér er þörf á átaki til að bæta þekkingu okkar á einstökum fiskistofnum. Til lengri tíma litið hlýtur þó meginmarkmið Íslendinga vera það að skapa forsendur fyrir fjölstofna reiknilíkani sem spannar vistkerfi hafsins umhverfis landið. Þar eru miklir hagsmunir í húfi.Hugsanlega þarf að huga að betur að stjórnsýslu í okkar rannsóknarumhverfi. Kerfislægur vandi felst í því að tenging við afkomu útgerðar og úthlutun aflamarks er ekki metin. Hið opinbera metur árangur út frá sjálfbærni og hvernig tekst að minnka óvissu ásamt því að halda rannsóknum innan fjárlaga. Það liggur heldur ekki fyrir hvort sú eftirfylgni byggist á reiknaðri hagkvæmni rannsókna á þjóðarhag, en slík tenging er augljóslega fyrir hendi og þarf að vera þekkt.

Staða á mörkuðum og hámörkun auðlindarinnar


Verðmæti útflutnings á Loðnu og veidd tonn


Það er áhugavert að skoða slíkar hugmyndir um hámörkun auðlindar í tengslum við nýhafna loðnuvertíð. Horfur eru á að hún verði sú fengsælasta í langan tíma en að ýmsu er að hyggja. Loðnan er sér á báti miðað við aðrar fisktegundir. Beint samband á milli magns og verðmæta er ekki fyrir hendi og erfitt að nota eina loðnuvertíð til að spá um verðmæti þeirrar næstu. Höfum í huga að síðasta loðnuvertíð skilaði hærra meðalverði fyrir hvert útflutt kíló af loðnuafurðum en áður hefur verið.Margir hafa því áttað sig á að það getur verið hagkvæmara fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn í heild að veiða minna af loðnu en öll þessi 662 þúsund tonn sem Íslendingum hefur verið úthlutað. Af hverju skyldi það vera? Jú, framlegðin yrði meiri og kostnaður minni ef við til dæmis myndum einungis veiða 250 þúsund tonn. Þetta er skýrt dæmi um það að hin líffræðilegu sjónarmið geta ekki ein gilt þegar horft er á afkomu útgerðar. Þá þurfa markaðsaðstæður að fá sitt vægi. Því þyrftu sjónarmið sem byggjast á hámörkun þjóðarhags af auðlindinni að fylgja ráðgjöf Hafró og hvort tveggja að leggjast fyrir ráðherra. Það segir sig sjálft að það er engin skynsemi í því að slíta bæði mannskap og tækjum til að ná í afla sem við fáum lítið fyrir á markaði þegar við vitum að verð afurða mun fyrirsjáanlega lækka við aukið framboð. Höfundur er framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf. og sjávarútvegsfræðingur. svanur@arcticeconomy.com

14 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page