Takmörkun eignarhalds í sjávarútvegi vs. fiskeldi
Ísland hefur lengi haft strangar reglur um eignarhald í sjávarútvegi, en þessi takmörkun á ekki við um fiskeldi sem var til umræðu á nýloknu þingi. Þessi munur á framkvæmd í lögunum vekur athygli og getur haft víðtækar afleiðingar. Ef við náum að framleiða 150 þúsund tonn af laxi, sem spár eru um, jafngildir það um 300 þúsund tonnum af þorski og yrði nærri helmingur af útflutningsverðmætum sjávarafurða.
Skoðum nokkra þætti.
Takmarkanir í sjávarútvegi
Lög um stjórn fiskveiða kveða á um stranga eignarhaldsreglu. Til dæmis getur einn aðili ekki átt meira en 12% af heildaraflahlutdeildum í þorski og einungis er leyfilegt að eiga 1,5% af grásleppuheimildum. Þetta er gert til að tryggja að veiðiheimildir dreifist og viðhalda sjálfbærum veiðum. Það á síðan að stuðla að því að koma í veg fyrir einokun og tryggja að fleiri taki þátt í nýtingu auðlindarinnar.
Engar takmarkanir í fiskeldi
En andstætt þessu eru engar slíkar takmarkanir í fiskeldi. Einn aðili getur átt allar eignir í laxeldi og þar með ráðið yfir allri framleiðslu landsins. Þetta þýðir að erlendir aðilar geta eignast stóran hluta af fiskeldinu eða þess vegna allt fiskeldi á Íslandi án neinna takmarkana. Þetta ósamræmi getur haft verulegar afleiðingar fyrir atvinnugreinina og samfélagið.
Áhrif eignarhalds
Í fiskeldi getur samþjöppun eignarhalds haft mikil áhrif á markaðinn. Þegar einn aðili ræður yfir öllum eignum, hvort sem er innlendur eða erlendur, hefur hann mikið vald yfir framleiðslu og verði. Þetta getur leitt til einokunar og markaðsmisnotkunar jafnvel að fiskeldisfyrirtæki verði svo stórt í þjóðhagslegu tilliti að það megi ekki falla.
Um leið eiga nýir aðilar erfiðara með að komast inn á markaðinn þegar einn aðili hefur yfirráð yfir allri framleiðslunni. Það dregur verulega úr samkeppni og leiðir til hægari nýsköpunar.
Takmarkanir á eignarhaldi í sjávarútvegi stuðla að dreifingu eigna og tryggja að fleiri geti tekið þátt í nýtingu auðlinda. Þetta tryggir að markaðurinn verði ekki einokaður og stuðlar að jafnvægi í atvinnugreininni.
Með því að dreifa veiðiheimildum, stuðlar löggjöfin að sjálfbærum veiðum og verndun fiskistofna. Þetta er mikilvægt fyrir framtíð sjávarútvegsins og náttúrunnar ásamt því að mikil samkeppni er um að gera rekstur sem bestan.
Lagasetning og stefnumótun
Það er mikilvægt að huga að ósamræmi í lagasetningu á þessum tveimur sviðum. Ef reglurnar í sjávarútvegi eru til að vernda auðlindir og tryggja sjálfbæra nýtingu, hvers vegna ætti það ekki að gilda um fiskeldi líka? Samræmd lagasetning gæti stuðlað að heilbrigðari og sjálfbærari nýtingu auðlinda, hvort sem um ræðir fiskveiðar eða fiskeldi.
Niðurstaða
Þegar horft er á áhrif takmarkanna á eignarhaldi í sjávarútvegi og samanburð við að engar takmarkanir eru í fiskeldi, kemur í ljós óumdeilanlegt ósamræmi í lagasetningu þessara atvinnugreina. Til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda, stuðla að jafnvægi á markaði og vernda hagsmuni þjóðarinnar er nauðsynlegt að endurskoða og samræma þessar reglur. Það er mikilvægt að taka mið af þeim lærdóm sem fengist hefur úr sjávarútvegi og beita þeim einnig á fiskeldi til að tryggja langtíma hagsmuni allra hlutaðeigandi.
Comentarios