top of page
Search

Djúpkarfi annað hvalræði


Þetta er í fyrsta skipti sem við hættum veiðum á tegund, sem kemur sem meðafli og kvótinn verði núll eða sem verra er sett á veiðibann.”


Margt bendir til þess að matvælaráðherra muni leggja til að veiðar á djúpkarfa (l.sebastes mentella) verði hætt á komandi fiskveiðiári. Er það byggt á ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar frá 9. júní sl. Djúpkarfi hefur ekki verið fyrirferðarmikill í veiðum íslenskra skipa undanfarin ár eftir að úthafsveiðum á honum var hætt djúpt suðvestur af Reykjanesi. Karfinn á landgrunninu hefur alltaf komið sem meðafli með öðrum tegundum en áður en veiðarnar á Reykjaneshrygg hófust fyrir alvöru var allur karfi flokkaður sem ein tegund. Um tvær tegundir er að ræða og ekki er vitað af nákvæmni hvað mikið var af hvorri tegund í lönduðum afla síðastliðna áratugi. Við sérstaka kvótasetningu á djúpkarfa árið 2010 var áætlað að hlutfallið hafi verið 40/60 umhverfis landið, þ.e.a.s. 40% væri djúpkarfi og var þetta hlutfall skot út í loftið. Í því tilviki hefði verið farsælla að vinna mat einstakra veiðisvæða af meiri nákvæmni í stað þess að fella allt undir eitt landgrunn og úthaf.

Karfinn er víða

Allnokkuð er til af fræðigreinum um karfategundir hér í Norður-Atlantshafi og ýmsar skoðanir til um hegðun þeirra og staðsetningu. Samfara auknum rannsóknum, með áherslu á genarannsóknir, fást betri upplýsingar um ástand karfans þó enn sé langt í land að heildstæð mynd sé til af vexti og viðgangi hans. Undirritaður hefur rannsakað gögn frá Hafró og áreiðanleika þeirra með sérstaka áherslu á gullkarfa og grálúðu. Margt merkilegt hefur komið út úr þeirri vinnu og virðist mér að 62% aukning í gullkarfa á yfirstandandi fiskveiðiári sé vegna þeirrar vinnu sem Bláa hagkerfið og MarisOptimum hafa innt af hendi á þessum tegundum. Þess er þó ekki getið í skýrslum Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) eða tækniskýrslu Hafró um karfa og grálúðu. Skemmst er frá því að segja að útreikningar á gullkarfa, grálúðu og djúpkarfa voru teknir til endurskoðunar á fundum ICES og Hafró. Nýjar aðferðir og ný reiknilíkön voru notuð við mat á þessum stofnum sem leiddi til mikilla breytinga á ráðgjöf tengdum þessum stofnum. Blákalt mat Hafró var lagt á tölurnar og lagt var til að enginn djúpkarfi yrði veiddur við Ísland í því hólfi sem Hafrannsóknarstofnun hafði umsjón með við rannsóknir innan ráðsins. Fyrir þá sem ekki vita þá er djúpkarfi tegund sem er til staðar í öllu Atlandshafinu, allt frá Nýfundnalandi og langt norður í Barentshaf og því hverfandi hætta á að honum verði útrýmt þótt stofninn hér í hólfinu við Ísland sé lítill.

Hvað gerist með djúpkarfan?

Hafrannsóknarstofnun byggir sínar niðurstöður á þeim vísindagögnum sem stofnunin hefur til umráða. Það er síðan mat líffræðinga að ekki sé forsvaranlegt að stunda veiðar á djúpkarfa hér við land þar sem stofninn er lítill, sé horft til þeirra takmörkuðu gagna sem þeir hafa yfir að ráða. Ráðherra fær þessar tillögur í hendurnar og reynslan hefur verið sú að tillögur ráðherra eru samstíga tillögum vísindamannanna án þess að horft sé til þess hvaða afleiðingar þær hafa á umhverfi og rekstur útgerðar eða óvissu í gögnum. Það sem allir í útgerð velta nú fyrir sér er hvort það verði núll kvóti á djúpkarfa eða hvort sett verði á veiðibann. Með núll kvóta er líklega hægt að færa til djúpkarfa en með veiðibanni er það ekki hægt. Útgerðir geta flutt eitthvað af djúpkarfa síðasta árs á milli ára ef þeir velja að gera svo. En hvort þeir geti notað tegundatilfærslu innan ársins til að bjarga sér eða ekki er óvissu háð. Um það eru reyndar tvær ólíkar skoðanir á því, annars vegar hjá Fiskistofu og hins vegar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Mikilvægt er að skilja að djúpkarfi kemur alltaf sem meðafli við veiðar á flestum tegundum á ákveðnum svæðum en þó sérstaklega við veiðar á grálúðu og gulllaxi. Hætt er við að þær veiðar leggist af nema menn geti notað tegundatilfærslur innan kerfisins. Ef tegundatilfærsla verður leyfð, en þá er breytt úr einni tegund yfir á aðra sem er í núll kvóta í þessu tilfelli. Ef aftur á móti er sett veiðibann er ekkert hægt að gera í tilfærslum og veiðar á grálúðu og gulllaxi leggjast af með alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi útgerðir.

Óvenjuleg staða?

Þetta er í fyrsta skipti sem við hættum veiðum á tegund, sem kemur sem meðafli og kvótinn verði núll eða sem verra er sett á veiðibann. Veiðar á loðnu, síld, humar, hörpudisk og rækju á ákveðnum svæðum og tímum hafa áður verið stöðvaðar en ekki ein af bolfisktegundunum. Því er ástæða til að meta hvernig úthlutun veiðiheimilda er háttað með tilliti til vottunaraðila um sjálfbærar veiðar, alþjóðlegar samþykktir og ákvarðanir ráðherra sem eingöngu hafa byggst á líffræðilegu mati en ekki öllum öðrum þáttum er snúa að atvinnulífinu og stöðu fyrirtækjanna. Fleira kemur til en fyrst of fremst er mikil þörf á að skoða matið á djúpkarfastofninum og flokkun hans ásamt áreiðanleika gagnanna sem ákvörðunin byggist á. Það þarf að skoða áður en ákvörðun er tekin.


Greinin byrtist í MBL 17 júlí 2023

4 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page