top of page
Search
Writer's pictureSvanur Guðmundsson

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi

Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að sumu leyti vakti þetta litla athygli en þessi ánægjulegu tíðindi endurtóku sig árin 2011, 2014, 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021. Tvö síðustu ár hefur einn látist á ári. Nú er svo komið að við göngum að því vísu að sleppa við banaslys til sjós sem er merkilegt í sjálfu sér vegna þess að fáar stéttir glíma við jafn erfiðar ytri aðstæður og sjómenn við störf sín.

Breytingin er í raun ótrúleg. Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur hefur tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsund. Á Íslandi var stríðsárið 1941 mesta slysaár 20. aldar þegar 139 einstaklingar fórust til sjós, að hluta til vegna stríðsins. Árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður. Á árunum 1958-1967 létust 25 á ári að jafnaði og á árunum 1971-1980 fórust 20 sjómenn að jafnaði á ári. Áratugina á eftir breyttist myndin talsvert og á árunum 2001-2010 dró verulega úr dauðaslysum þegar samtals 21 sjómaður fórst. Í framhaldi þess gengu í garð slysalaus ár og á árunum 2011-2020 fórust samtals 8 sjómenn. Í dag eru banaslys til sjós fátíð.

 

Norðmenn eru eftirbátar

Forvitnilegt er að bera saman slysatölur sjómanna á Íslandi og í Noregi en þær sýna marktækar breytingar á tímabilinu með tilliti til öryggismála og þróunar í sjávarútvegi, Íslandi í hag. Í Noregi eru um 10.000 fiskimenn en á Íslandi eru um 3.000 sjómenn sem starfa við fiskveiðar. Það sem af er þessari öld hafa 149 norskir sjómenn farist en 29 á Íslandi.

 

Því miður er það svo að slysatíðni meðal norsku sjómannastéttarinnar er enn nokkur en þar verða að meðaltali 5 til 8 banaslys á ári, sem er auðvitað of hátt, sérstaklega þegar horft er til árangursins á Íslandi. Tilkynningar sýna að slys eru algeng og öryggismenning á mörgum norskum skipum kallar á verulegar úrbætur. Notkun á öryggisbúnaði eins og hjálmum og björgunarvestum er ekki víðtæk í norska flotanum, sérstaklega ekki utan dekks á togurum eða nótaskipum. Það endurspeglar ákveðna menningu á sviði heilsu, umhverfismála og öryggis sem kallar á úrbætur.

 

Hvað breyttist á Íslandi?

Hverju getum við þakkað þessa ánægjulegu þróun í slysamálum sjómanna á Íslandi? Fyrst er það að segja að ekkert eitt atriði hefur stuðlað að þessari breytingu heldur er þarna um að ræða marga samverkandi þætti sem hafa leitt til jákvæðrar þróunar. Miklu skiptir að sjómenn fá nú betri öryggisþjálfun með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna. Tilkoma vaktstöðvar siglinga skiptir einnig miklu, sem og efling Landhelgisgæslunnar. Tilkynningarskylda íslenskra skipa styrkir fyrsta viðbragð og ekki síður árangur af öryggisáætlun sjófarenda og almennt aukinni öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða. Öll slys og atvik eru nú rannsökuð með það fyrir augum að læra af mistökunum. Einnig skiptir miklu að skip hafa batnað og orðið öruggari um leið og eftirlit með skipum og búnaði hefur aukist. Síðast en ekki síst verðum við að horfa til sjálfs skipulags veiðanna eins og það birtist í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það auðveldar útgerðum að stýra sjósókn og forðast vond veður. Um leið hefur fagmennska aukist, færri óreyndir sjómenn eru til sjós og eftirlit og stýring útgerðarinnar sjálfrar hefur aukist.

 

Niðurstaða 

Þessi samantekt undirstrikar þann veruleika, að þótt marktæk framför hafi orðið í öryggismálum sjómanna í báðum löndum, eru enn mörg tækifæri til að bæta öryggisaðstæður og minnka slysahættu. Aukin vitund um hættuna, þekking og fræðsla, ásamt betri innleiðingu á öryggisbúnaði, geta leitt til frekari framfara á þessu mikilvæga sviði.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13 desember 2024

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa Hagkerfisins/Arctic economy. 

Gunnar Davíðsson, deildarstjóri i Troms fylkisstjórn, Noregi.

199 views0 comments

Commentaires


bottom of page