top of page
Search

BH-Umhverfisþættir hafréttarsáttmálinn og staða standríkja

1. Umhverfisþættir

Vistkerfi hafsins er það sem skiptir okkur hér á Íslandi mestu máli. Við búum líka við meiri áhættu en aðrar þjóðir vegna þess að hafstraumar kringum landið geta breyst skyndilega og valdið kólnun og breytingum á göngu fiska. Styrkur okkar Íslendinga liggur í sjálfbærri umgengni við hafið og í að finna jafnvægi milli veiða og verndar lífríkisins. Enginn eflir okkur á þeim sviðum meir en við sjálf. Við þurfum að beina kröftum okkar betur að rannsóknum á hafinu og lífríki þess, því þar liggja okkar hagsmunir umfram aðrar þjóðir. Aðrir hafa ekki sömu ástæðu til frumkvæðis í þeim efnum. Þann styrk og þá þekkingu eigum við að nýta okkur hér sem erlendis og leggja áherslu á það framlag til umhverfismála heimsins. Af nógu er að taka. Plastmengun er mikið vandamál í höfum heimsins, ofnýting fiskstofna  víðtæk og ástæða er til að hafa áhyggjur af súrnun sjávar. Áhrif framburðar jökulvatns á lífríki sjávar er lítt rannsakað.

Vöktun umhverfisþátta hafsins er verulega ábótavant hér á þessari jörð. Hafið þekur 71% jarðar og er oft sagt að vitneskja okkar er betri um yfirborð tunglsins! Hvernig þættir í hafinu vinna saman eru okkur enn framandi og mikið verk að vinna þar. Heimurinn rífst um hvernig eigi að túlka breytingar á einni gastegund með eina samfelda mælingu á eldfjalli frá 1958 en á sama tíma vitum við sáralítið um eðli eða mælingar á hafstraumum sem ferðast um jörðina alla. Hér á landi erum við með eina elstu samfelldu mælingu á hitastigi sjávar í Stykkishólmi frá 1845 og marga af fremstu vísindamönnum í heimi á sviði sjávarvistkerfa. Frumkvöðlar í hafrannsóknum lögðu mikið upp úr rannsóknum á grunnþáttum vistkerfisins en nú segja menn mér að áherslur á þá þætti hafi hrakað. Þessa þekkingu þurfum við að efla og koma á framfæri . Jafnframt þurfum við að hefja samskonar rannsóknir með samstarfslöndum þar sem við vinnum að þróunarsamvinnu og vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi þeirra.

Verndarsamtökum vex fiskur um hrygg og berjast þau fyrir lokun hafs- og vatnasvæða. Ábyrg og sjálfbær auðlindastýring er því miður undantekning frekar en regla á stofnum hafsins og þar getum við Íslendingar sýnt fram á árangur umfram aðrar þjóðir. Jafnframt höfum við með tiltölulega fámennum hópi vísindamanna og eftirlitsaðila náð árangri við stýringu umhverfisáhrifa mannsins á lífríkið sem við vinnum með. Það er ætti að vera smáeyjaríkjum hvatning til að taka upp stýringu okkar og ógn af stórveldum sem myndu gleypa smáeyjaríki er síður til staðar í samstarfi tveggja smárra aðila.

2. Hafréttarsáttmálinn

Það er ástæða til að nefna hafréttarsáttmálann í þessu stefnumiði. Aukin not mannsins af hafinu og mikilvægi þess í hnattrænu samhengi lagði grunninn að gerð Hafréttarsamningsins. Með tilkomu hans var skapaður lagalegur rammi um málefni hafsins. Alþjóðleg umræða um hafrétt hefur haldið áfram á síðari árum þar sem umhverfismál hafa orðið meira áberandi Aukin efnahagsleg not mannsins af hafinu og mikilvægi þess í hnattrænu samhengi lagði grunninn að gerð Hafréttarsamningsins. Með tilkomu hans var skapaður lagalegur rammi um málefni hafsins. Alþjóðleg umræða um hafrétt hefur haldið áfram á síðari árum þar sem umhverfismál hafa orðið meira áberandi.

„Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar. Samningurinn var samþykktur 1982, Ísland fullgilti hann 1985 og tók hann gildi árið 1994 [..]. Með samningnum voru settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins og tekur hann til allra hafsvæða, þar á meðal loftrýmisins yfir þeim og hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Athafnir mannsins á hafinu grundvallast á samningnum, þar með taldar ráðstafanir með það að markmiði að varðveita vistkerfi þess, verja lífríkið, skapa vettvang og farveg alþjóðlegra samskipta, tryggja sjálfbæra nýtingu hafsins og tryggja þannig sem best sameiginlega hagsmuni allra jarðarbúa [..]. Íslensk stjórnvöld hafa allt frá samþykkt samningsins haft hann í öndvegi og lagt áherslu á að hann skapi lagalegan ramma sem öll umfjöllun um málefni hafsins verði að byggjast á og því sé mikilvægt að standa vörð um samninginn og stuðla að framkvæmd hans. Ísland var fyrst Evrópuríkja til að fullgilda samninginn en í honum var meðal annars staðfest 200 sjómílna efnahagslögsaga strandríkja.“

Hafréttársáttmálin á undir högg að sækja þar sem krafist er aukinnar friðunar svæða til verndar ágangi þjóða sem stunda veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og inná svæði þjóða sem ekki stunda veiðar á sínum hafsvæðum. Þörf er á samstarfi þjóða til að standa vörð um hann. Ísland hefur skipað forystu þar lengi og þær raddir heyrast meira að segja að staða okkar sé of sterk innan hans! Með samstarfi við sjálfstæð strandríki og uppbyggingu eins og þá sem við ástundum hér við land getum við styrkt samstarf okkar og þar með styrkt stöðu strandríkja innan hafréttarsáttmálans.

3 Bláa hagkerfið


Nafngiftin „Bláa hagkerfið“ vísar til þess að fjallað er um vatn, ferskt sem salt, auðlindir þess og hagnýtingu þeirra. Jafnframt vísar nafngiftin til hlutverks fjármálakerfis heimsins og einstakra stofnana þess eins og Alþjóðabankans, en ekki síður til minni fjármálastofnana og fjárfesta. Hið veigamikla hlutverk stjórnmálanna er sjálfgefið og sjálfbærni ætíð ráðandi í setningu markmiða.

Augu manna um allan heim hafa opnast fyrir því að það er hægt að ofbjóða hafinu og á sumum sviðum eru menn komnir vel á veg í þeim efnum. Þetta á einkum við hvað varðar mengun hafsins, hlýnun, súrnun og ofnýtingu auðlinda þess. Þarna er komin fram ógn sem bregðast verður við en augljóslega verða höfin ekki hreinsuð á einni nóttu né verður það gert með viðráðanlegum kostnaði. Viðbrögð við þessari ógn verða að eiga sér stað með sameiginlegu átaki mannkyns sem meðal annars felur í sér að lyfta verður undir efnahag fátækari þjóða svo þær hafi mátt til að leggja sitt af mörkum. Þarna gildir það sama og í loftslagsmálum, allir verða að leggja sitt af mörkum.

Þessi ógn er farin að raungerast hjá smáeyríkjum í þróun (SIDS) og minnst þróuðu ríkjunum (LDGs) og verða þeim fjötur um fót að viðbættu því verkefni að takast á við verndun hafsins. Í þessum ríkjum má því sjá fyrir sér að unnt sé að tvinna saman þróunarsamvinnu og varðveislu og ráðast þannig að rótum vandans hjá þeim sem minnst afl hafa til aðgerða.

Með þetta í huga samþykkti þing Sameinuðu þjóðanna ályktun 70/226 árið 2015 um að kalla saman ráðstefnu um stuðning við heimsmarkmið SÞ nr. 14. Þessi ráðstefna var haldin í höfuðstöðvum SÞ í New York árið 2017. Að undirbúningi hennar stóðu fjöldi stofnanna SÞ og alþjóðlegra stofnanna eins og Alþjóðabankinn sem tók frumkvæði í málinu og gaf meðal annars út undirbúningsskýrslu stofnunarinnar um mögulegan ávinning af Bláa hagkerfinu sem hér er m.a. stuðst við. Hér er ekki um neitt smá mál að ræða, sem dæmi um það þá gefur leit á netinu að orðunum „Conference to Support the Implementation of Sustainable Development Goal 14“ nær 10 milljón tilvísanir.

Ef til vill gefur það besta hugmynd um umfang þessa máls að skoða hvaða skilyrði einstök verkefni þurfa að uppfylla til að geta talist innifalin í Bláa hagkerfinu, en þau þurfa að:

 • Bæta samfélagslegan og efnalegan hag núlifandi og framtíðar kynslóða.

 • Endurbæta, vernda, og viðhalda fjölbreytni, þolstyrk, framleiðni, megin hlutverki og innra verðmæti lífkerfa sjávar.

 • Vera byggð á hreinni tækni, endurnýjanlegri orku og hringrás efna sem minnkar úrgang og hvetja til endurnýtingar.

 • Verkefnin geta verið á mörgum sviðum innan margra atvinnugreina svo sem fiskveiða og -vinnslu, sjóflutninga, vinnslu auðlinda á og undir sjávarbotni, ferðamennsku, meðferð skólps og úrgangs og loftslagsbreytinga (kolefnalosun).

Mikið er lagt upp úr þátttöku einkageirans, útboði einstakra framkvæmda á því sviði. Ein áskorunin sem fátækari ríki mæta er sú, að mörg þeirra eru það smá, að þau geta takmarkað nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar. Af því leiðir, að æskilegt er að leggja áherslu á smærri fyrirtæki í eigu heimamanna.

Eins og framangreint ber með sér snýst Bláa hagkerfið mjög um það sem nefnt hefur verið sjálfbær þróun. Grundvallarrit um það hugtak er Brundtland-skýrslan „Our common Future“, frá 1987 sem setur þær ógnir sem steðja að mannkyni, mismunun þjóða, einstaklinga eftir kyni og fleira í samhengi. Síðan þá hefur þessi skýrsla lagt hugmyndafræðilegan grunni að margvíslegri starfsemi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana.

 1. Tengsl við loftslagsstefnu

Margt er sameiginlegt með þeirri aðferðafræði sem býr að baki Bláa hagkerfinu og þeim loftslagsrannsóknum sem eiga sér stað vegna hættunnar á hlýnun jarðar. Sú nálgun byggir ekki aðeins á því að öll svæði jarðar séu samtengd í einum heimi sem mannkynið er hluti af, einni náttúru sem maðurinn er hluti af og þá um leið sameiginlegri ábyrgð mannkyns á þeim skaða sem hann veldur á náttúrunni með athöfnum sínum. Þessar tengingar valda því að þótt afleiðingar af tilteknum athöfnum komi fram á staðbundinn hátt valda þær breytingum yfir miklu stærri hluta jarðar, jafnvel alla jörðina og ekki verður á þeim tekið nema með sameiginlegu átaki.

Hvað loftslagsvísindin varðar eru þessi tengsl orðin mjög ljós vegna þeirra hnattrænu áhrifa sem orkunotkun veldur með mengun lofthjúps jarðar en sú mengun berst hratt um alla jörð með loftstraumum og getur valdið hættulegri hlýnun. Við þeirri ógn þarf að bregðast með markvissri samtengingu vísindamanna þar sem hverjum einstakling er ljós staða sín og tengsl rannsókna sinna við gerð þeirrar heildarmyndar sem stjórnmálalegar ákvarðanir verða að byggjast á.

Heildarmyndin samanstendur bæði af forsögn um mögulegar breytingar í framtíð og vísindalegri úttekt á mögulegum afleiðingum. Með skoðun hennar kristallast mikilvægi stjórnmálalegra ákvarðana þar sem taka verður tillit til mismunandi lífskjara manna á hinum ýmsu svæðum jarðar, hagsmuna einstakra svæða og þeirra mismunandi tækifæra til úrbóta sem eru fyrir hendi hér og þar. Þar er algerlega ljóst, að á þessum málum verður ekki tekið öðru vísi en með sameiginlegu átaki allra þjóða, en forsenda þess er meðal annars jöfnun lífskjara milli fátækra þjóða og ríkra. Þetta sjónarmið er í reynd viðurkennt með Parísarsáttmálanum frá 2015, en með honum var ef til vill tekið stærra skref í átt til markvissrar þróunarhjálpar en það sem tekið var í loftslagsmálunum sjálfum.

Loftslagsmálin hafa þannig sýnt fram á mikilvægi þess að mynda vísindalegan grunn fyrir stjórnmálamenn þegar þeir vinna að sameiginlegum ákvörðunum sem stefna að ekki aðeins sjálfbærum lífsháttum manna heldur einnig sjálfbæru lífríki á jörðinni. Það verður þó að segjast eins og er, að í því vísindastarfi hefur hafið og lífríki þess ekki fengið alla þá athygli sem þörf er á. Bláa hagkerfið er ef til vill svar við því.

Í hafinu breiðast út áhrif af gerðum manna, svo sem mengun, mjög hægt með hafstraumum og mun hægar en loftmengun. Lífríki hafsins getur hins vegar brugðist við gerðum manna mun hraðar og jafnvel svo að kemur á óvart. Þegar kemur að spurningunni um sjálfbærni þarf bæði að líta hnattrænt á málin og skoða áhrif á einstök lítil samfélög, sem oft hafa ekki getu til þess að fjármagna þær aðgerðir sem þarf til að færa lífsskilyrði þeirra upp í það stig sem aðrar þjóðir búa við og eru þeim nauðsynleg til að þær geti að fullu tekið þátt í myndun sjálfbærs samfélags á jörðinni. Hafið, vötnin og lífkerfi þeirra eru og verða ráðandi hluti af undirstöðum slíks samfélags. Bláa hagkerfið býður því jafnvel upp á enn meira flækjustig en loftslagsmálin en er ekki síður mikilvægt viðfangsefni. Það veitir stjórnendum og stjórnmálamönnum vísindalegan grunn til að styðjast við þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir sínar.

 1. Hugsjónir og áherslur Bláa hagkerfisins

Mannkyn er að vakna upp til vitundar um þær ógnanir sem stafa af hlýnun jarðar, mengun hafa og offjölgun. Á þessum vandamálum verður ekki unnið á áhrifaríkan hátt nema allt mannkyn geti lagt sitt af mörkum, þar með talið fátækar þjóðir sem í dag hafa ekki afl til neins umfram það að afla sér nauðsynlegasta lífsviðurværis. Rannsóknir á þeirri hlýnun og mengun sem hefur komið fram undanfarna áratugi hafa leitt í ljós að tími til viðbragða er skammur. Lyfta verður umræddum þjóðum frá örbyrgð til sjálfbærni og bjargálna á vestrænan mælikvarða á skemmri tíma en það tók íslensku þjóðina að fara þá leið. Þetta kallar á breytingu hugarfars um það hvernig nálgast má og standa að þróunarhjálp við fátækar þjóðir og þó í samhengi Bláa hagkerfisins sé aðeins rætt um þjóðir sem byggja lífsafkoma sína á auðlindum hafsins gilda mörg sömu megin sjónarmiðin um alla þróunarhjálp og allar þjóðir.

Á síðasta ári bauð Kenya ásamt Kanada og Japan til fyrstu ráðstefnunnar um sjálfbært blátt hagkerfi og sóttu hana hátt í 17.000 manns. Á ráðstefnunni var bent á, að frá 2010 til 2030 mun Bláa hagkerfið tvöfaldast upp í 1,5 billjón US $. (1,5x1012 USD).

Á ráðstefnunni komu fram sjónarmið margra aðila, ríkja og stofnana og settu sumir fram skuldbindingar og tímasett markmið. Þar komu meðal annars fram níu forgangssvið Bláa hagkerfisins, sem Tafla 6 sýnir í túlkun þess sem ritar. Myndin veitir forsmekk að þeirri fjölbreytni sem allir þeir sem vilja leggja af mörkun til þróunarmála og ekki síður vilji þeir stunda viðskipti undir formerkjum Bláa hagkerfisins verða að kunna skil á.

Tafla 6 Níu áherslusvið frá Nairobi-ráðstefnu 2018

AtriðiÁ viðSjálfstýrðir skipaflutningar+1Hafnir samgöngur, alþjóðatengingar.AtvinnaSköpun starfa, eyðing fátæktar.BorgirFerðamennsku, strandir og innviðir með há þolmörk.Sjálfbær orkaJarðefna auðlindir, nýsköpun í iðnaði.Stjórnun og sjálfbærni lífs í vatniVerndun og sjálfbær hagnýtingBinda enda á hungurFæðuöryggi og stuðla að góðu heilsufari og sjálfbærum fiskveiðum.LoftslagsaðgerðirLandbúnaður og fiskveiðar, meðhöndlun úrgangs, ómenguð höf.Öryggi á sjóÖryggi og eftirfylgni laga og reglna.FólkMenning, byggðir, samfélög+2 – hið umlykjandi Bláa hagkerfi.Skýringar:+1 „Smart shipping“ +2 Minna á innlimun og virkjun kvenna, barna, og jaðarsettra hópa í samfélaginu.


Ísland hefur í mörgu tilliti þróast frá fátækt til bjargálna eftir línum Bláa hagkerfisins. Við höfum tekið mörg þessara mála föstum tökum og margir muna þau í mun verra horfi en nú er. Í einstaka þróunarríkjum getur ástandið þó verið enn verra en það sem ríkti hér fyrir tíma breytinga. Til dæmis höfum við tekið öryggi sjómanna afar föstum tökum, svo mjög að það er til fyrirmyndar. Víða er pottur brotinn á því sviði og öryggismál í ólestri.

Aðrar hliðar málsins sýna grundvöll Bláa hagkerfisins. Af þeim má helst nefna:

 • Hafréttarsáttmáli Sameinuðu Þjóðanna ásamt skyldum gerðum myndar hinn lagalega grundvöll. Þar er ramminn um athafnir þjóða innan og utan eigin lögsögu, svæðaskiptingu o.fl. Alþjóðabankinn leggur mikla áherslu á þetta atriði.

 • Þegar kemur að ákvörðunum, sér í lagi stefnumótandi ákvörðunum stjórnmálamanna er mikilvægt að taka mið af allri vísindalegri þekkingu sem til er. Vísindamenn jafnt sem hagfræðingar þurfa að koma að túlkun gagna og geta metið nákvæmni þeirra.

 • Bætt lífsskilyrði þjóða leiða til aukinnar orkunotkunar. Þetta er staðreynd sem horfast þarf í augu við. Fyrir þróunarlönd kemur krafan um meiri orku á undan kröfunni um sjálfbæra orku.

 • Fyrir utan orku er fjármagn afl þeirra hluta sem gera skal. Stjórnmálamenn þurfa að taka stefnumarkandi ákvarðanir um fjármögnun og móta þessa hlið málsins.

 • Til að mynda hafa smá eyríki oft ekki yfir því fjármagni eða þjálfuðum mannauði að ráða sem þarf til að geta komið á fót stórum fyrirtækjum sem njóta hagkvæmni stærðarinnar. Það ber því að leggja áherslu á minni fyrirtæki. Til að ríkin geti síðan notið afraksturs aukinnar auðlindanýtingar þurfa afurðir þessara fyrirtækja að komast á markaði auðugri ríkja. Af því leiðir að markaðsöflun og bættir flutningar eru nauðsyn.

Í umfjöllun um Bláa hagkerfið fer ekki mikið fyrir mannréttindum utan hvað stöku sinnum er minnst á konur og börn í því efni. Að líkum er þetta ekki vegna þess að starfsemi á þessu sviði sé ekki verðmæt fyrir Bláa hagkerfið heldur hins, að hvorki má draga úr öllu því starfi sem frjáls félagasamtök inna af hendi né frjálsum framlögum einstaklinga, né má með neinum hætti stjórnvaldsvæða þessa starfsemi eða hvetja til slíks. Sú hugsjón að allir þjóðfélagsþegnar séu inni í þjóðfélaginu og virkir þar er þverlæg í Bláa hagkerfinu og myndar eina burðarsúlu þess við hlið framleiðni og sjálfbærni.

 1. Heildstæð áætlanagerð

Af strandríkjum og smáum eyríkum heims eru 54 í hópi þeirra þar sem tekjur eru lágar eða í lægra meðallagi. Ríkin liggja vítt og breytt um heimshöfin, stærð þeirra er misjöfn, menning ólík og vandamál mismunandi. Ef til vill er það eina sem þau eiga sameiginlegt það, að þróunarsamvinnu þar má fella undir Bláa hagkerfið.

Lögsaga þessara ríkja er samanlagt veruleg og efnahagskerfi margra þeirra byggir á grunni þeirra auðlinda sem þar er að finna. Nýting þessara auðlinda hefur mótað menningu ríkjanna og verður að standa að verulegu leyti undir sókn þeirra til betri sjálfbærra lífskjara. Í sumum tilfellum geta þessar auðlindir verið ofnýttar og afrakstur af þeim tekin að minnka. Í öðrum tilfellum eru þær ef til vill vannýttar en hvað svo sem skýrir stöðuna er ljóst að þarna eru tækifæri til úrbóta.

Mikilvægt er að greina orsök lítilla tekna af auðlindanýtingu og þar geta verið fleiri en einn orsakavaldur að verki. Ofnýting fiskistofna getur t.d. stafað af ólöglegum veiðum utanaðkomandi aðila, ofnýtingu annarra ríkja á eigin efnahagslögsögu, ójafnvægi í vistkerfum, mengun á hafsvæðum nær og fjær, minnkandi stofnar, ófullnægjandi skipulagi veiða og slökum stjórnarháttum. Vannýting fiskistofna getur t.d. stafað frá grónum venjum, vanþekkingu, fjárskorti og ófullnægjandi markaðsöflun. Greina þarf orsakirnar áður en hægt er að ákveða hvaða aðstoð hentar á hverjum stað, í hvaða formi og með hvaða hætti hún er veitt. Staðbundnar ástæður má kortleggja í samráði við viðkomandi yfirvöld, fólk á staðnum, alþjóðlegar stofnanir og lánastofnanir ásamt þeim sem hafa reynslu af aðstoð við viðkomandi ríki. Hvert og eitt þróunarríkjanna þarf að skjalfesta sína sýn á framtíðina og þá leið sem þau helst sjá til framfara. En þó þau njóti sérfræðiaðstoðar til þess verks getur ný sýn utanaðkomandi aðila breytt miklu. Allt krefst þetta náins samráðs.

Blá hagkerfið gerir einnig kröfu um að ytri ástæður séu kortlagðar líka. Í því samhengi þarf að greina þá vísindalegu þekkingu sem til er um viðkomandi hafsvæði, fiskistofna þess og aðrar auðlindir ásamt þeim breytingum sem loftslagbreytingar og súrnun hafsins eru að hafa eða geta haft á þessa þætti. Þar með er talin hækkun sjávarstöðu. Þá þarf einnig að greina áhrif af athöfnum annarra ríkja á þá fiskistofna sem ætlunin er að nýta betur, hvort von er á aukinni samkeppni um nýtingu þeirra eða hvort hætt er við vaxandi mengun eða önnur áhrif á vistkerfið.

Hér hafa aðeins verið rakin afmörkuð dæmi en viðfangsefnið í heild sinni er afar flókið og meta þarf hvert tilfelli fyrir sig. Bláa hagkerfið gerir kröfu um eins fullkomna og trausta heildarmynd og hægt er að afla. Slík mynd verður ekki dregin upp án þess að vera í traustu samstarfi við alla þá aðila sem leggja stund á eða hlutast til um þróunarhjálp og hver aðili verður skila sínum skýrslum og sinni reynslu inn í þetta samstarf.

Ein mikilvægast áskorunin sem fátæk eyríki búa við birtist í hugsanlegu vanmati á auðlindum hafsins og því hvernig stofnar og lífkerfi hafa áhrif á og styðja hvert annað. Einangruð stjórn auðlindanýtingar gerir erfitt um vik að greina eða bregðast við staðbundnu áreiti á lífkerfi sem geta breiðst út til annarra stjórnsvæða. Stundum er um að ræða ófullnægjandi útfærslu hafréttarsáttmálans og tengdrar löggjafar. Sjálfbærni lífríkis þarf að skoðast heildstætt.

Bláa hagkerfið leggur áherslu á að breytingar á nýtingu auðlinda hafsins valdi ekki truflun á lífkeðjum hafsins, þannig að framleiðni þeirra minnki. Þar er líka áhersla á að mengun hafsins sé haldið í lágmarki með viðunandi meðferð úrgangs og endurnýtingu eins og við verður komið. Það felur í sér að það sem stundum er nefnt hringrásarhagkerfi er óaðskiljanlegur hluti Bláa hagkerfisins.

Að lokum er vert að vekja áherslu á að Bláa hagkerfið leggur áherslu á jaðarsetta hópa, hvort sem það eru konur, börn eða aðrir hópar og virkjun þeirra á grunni jafnréttis inni í samfélaginu. Sömuleiðis ber að leggja áherslu á aukna þekkingu, hvort sem það er á sviði stjórnunar, vísinda eða handverks í þjóðfélögunum. Það verður helst gert með aukinni almennri menntun. Engin áætlun er fullkomin nema hún taki til þessara þátta.

 1. Áskoranir og fjármögnun

Bláa hagkerfið leggur áherslu á nýtingu einkafjármagns og einkafjárfesta til einstakra verkefna í samræmi við heimsmarkmiðin. Ljóst er að þetta verður ekki raungert nema með því að tryggja viðkomandi aðilum viðunandi arðsemi og örugga endurheimtu fjármagns ásamt hæfilega tryggu fjárstreymi. Með því að bæta þessar tryggingar er ekki aðeins verið að auka áhuga einkaaðila á að takast á við og fjárfesta í verkefnum í fátækari ríkjum, það er einnig verið að tryggja aukna samkeppni milli þessara aðila sem mun að endingu leiða til meiri nýsköpunar, sparnaðar og farsælli lausna. Fjármögnun og aðkoma fjármálastofnana skiptir hér megin máli.

Þegar um fjármögnun þróunarverkefna er að ræða er mikið horft til Alþjóðabankans og þróunarbanka einstakra svæða. Þessir aðilar hafa þekkingu og yfirlit yfir fjárhag og greiðslugetu ríkja og leggja mat á það öryggi sem fjárfestum stendur til boða. Það hefur í för með sér aukið traust á verkefnum þegar þessar stofnanir koma að og veldur því að aðrar lánastofnanir eru fúsari til aðkomu og reikna sér minna áhættuálag.

Það er til þess að gera stutt síðan alþjóðasamfélagið ákvað að fara leið Bláa hagkerfisins. Því eru leiðir og tæki til fjármögnunar enn ekki nægilega þróaðar enda ýmsar áskoranir við að etja. Þar á meðal er þörfin fyrir þann mannauð sem þarf til að beisla arðinn af aukinni atvinnustarfsemi og nýsköpun atvinnuvega innan Bláa hagkerfisins í þágu þjóðarinnar. Þetta getur krafist nokkurs þolinmóðs fjármagns í upphafi. Undanfarna áratugi hafa verið í gangi tilraunir til að bæta fjármálaumhverfi heimsins, meðal annars til að hindra peningaþvætti en þær tilraunir hafa ef til vill ekki borið nægan árangur enn. Það að forma tryggingar, koma á viðunandi eftirliti og efla traust meðal annarra lánastofnana, styrktarsjóða og fjárfesta getur því verið flókið verkefni.

Til að byggja upp Bláa hagkerfið þarf að virkja fjármagn, taka í notkun rétta tækni og byggja upp framleiðslugetu. Stjórnvöld þurfa líka að hvetja til meiri starfsemi í hagkerfinu, félagslegra umbóta og heilbrigðs umhverfis. Það þarf fjárfestingar og nýsköpun í fjármögnun fyrir sjálfbært blátt hagkerfi og ekki má gleyma fræðslu í rannsóknum og þróun varðandi umhverfið í sjó og á ströndum. Finna þarf leiðir til fjármögnunar alls þessa sem hæfir hverjum stað á þann hátt að efnahagslegar framfarir geti orðið sem hraðastar.

Helstu leiðir til fjármögnunar innan Bláa hagkerfisins eru eftir sem áður hagstæð lán frá þróunarbönkum, styrkir frá alþjóðlegum sjóðum eins og til dæmis sjóðum Sameinuðu þjóðanna og skuldabréfaútboð meðal alþjóðlegra banka. Hvað það síðast talda varðar er mikil þörf á nýsköpun í gerð nýrra lánaforma eða tækja (e. financial instruments). Ríkisstjórnir geta með aðstoð stórra alþjóðlegra viðskiptabanka gefið út skuldabréf, til dæmis „Blue bonds“ með aðkomu Alþjóðabankans þannig að hann veitir vissar ábyrgðir til viðbótar ríkisábyrgð og boðið síðan út á fjármagnsmarkaði. Mikið er lagt upp úr þátttöku einkageirans og útboði einstakra framkvæmda í þeim geira og áhersla á stofnun eða samvinnu við smá fyrirtæki í fátæku löndunum.

 1. Bláa hagkerfið í samhengi íslenskrar þróunaraðstoðar

Íslenska þjóðin hefur þrátt fyrir smæð sína haslað sér völl meðal ríkari þjóða heims og notið þar nábýlis við hafið. Þrátt fyrir hinn skamma tíma eru Íslendingar í fremstu röð á ýmsum þeim sviðum er varða Bláa hagkerfið. Þar má nefna nýsköpun í tækni, vísindalegar rannsóknir, stjórnun fiskveiða, nútímalegt stjórnkerfi, öflugan einkageira og alþjóðlega viðskiptaþekkingu. Ekki er síður mikilvægt að hafa góða verkþekkingu. Ísland er því í góðri aðstöðu til að inna af höndum verðmætt framlag innan Bláa hagkerfisins og það gæti ekki síður hlotið viðurkenningu sem framlag til þeirrar sjálfbæru þróunar sem er megin takmarkið með samvinnu þjóða um loftslagsmál og sjálfbært orkukerfi, þar sem Ísland býr einnig yfir mikilvægri reynslu. Síðast en ekki síst má telja fram reynslu Íslands og þekkingu í öryggismálum sjómanna, jafnréttismálum, réttindum kvenna og barna og samfélagslegri ábyrgð gagnvart þeim hópum sem minna mega sín. Allt setur þetta Ísland í einstaka stöðu til þess að láta til sín taka með góðum árangri á sviði þróunarhjálpar í anda Bláa hagkerfisins.

Flest af þeim verkefnum sem um ræðir tengjast sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, öflun hráefnis, aukin verðmætasköpun og viðskipti með afurðir. Þarna tengjast skipa- og bátasmíð, hafnargerð, flutningar og öflun markaða. Þarna er líka um að ræða verkefni á sviði umhverfisverndar sem tengst geta bæði heilbrigði og betri lifnaðarháttum íbúa og líka aukinni starfsemi í þjónustu við ferðamenn. Þau verkefni leiða ekki endilega til framleiðslu markaðsvöru heldur stuðla að betri búsetuskilyrðum og auknum tækifærum til verðmætrar atvinnusköpunar.

Tafla 7 sýnir nokkrar gerðir verkefna.

Tafla 7 Yfirlit yfir nokkur verkefni innan Bláa hagkerfisins.

Öflun og viðskipti með afurðir frá auðlindum sjávarFiskbúskapurVeiðar og vinnsla, netagerð, ísframleiðsla, skipasmíð, vinnsluvélar, markaðsfærsla, matvælaviðskipti, viðskipti með aðrar sjávarafurðir, ræktun í sjó.Iðnaður með fiskefniLíftækniiðnaður og líftæknirannsóknir til nýsköpunar.Vinnsla ólífrænna afurðaMálmvinnsla af sjávarbotni, olía og gas, ferskvatn úr sjóNýting náttúruaflaVinnsla endurnýjanlegrar orku frá vindi, öldum og sjávarföllum.Verslun og viðskipti kringum höfinSjóflutningar, skipa smíðar, hafnir og skyld þjónustaVerkefni án beinnar markaðstengingarUmhverfiKolefnabinding, verndun stranda og lífríkis þeirra, ráðstöfun úrgangs frá landi,

Það er ljóst, að til að hámarka sjálfbæra framleiðslu lífkerfa hafsins, sem er okkur hér á Íslandi nauðsynlegt, þá verður að bæta úr umgengni við hafið, bæði hvað varðar mengun og líffræðilegt jafnvægi nýtingar. Það krefst vissrar þróunaraðstoðar, því ekki dugir að skilja eftir fátækar þjóðir sem hafa hvorki efni á umhverfisvernd né öflun eða beitingu þeirrar vísindalegu þekkingar sem þarf til að umgangast hafið án þess að skaða lífríki þess. Hér þarf Ísland að leggja af mörkum.


 1. Staða strandríkja.

Strandríki og smáeyjaríki hafa sérstakan sess innan sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna og talsvert magn gagna hefur verið tekið saman um málefni þeirra. Á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna má finna ágætt yfirlit um sjálfbæra þróun af þessu tagi. Margvísleg áföll hafa dunið á þessi ríki og nýja nálgun þarf til að kortleggja stefnu til sjálfbærrar þróunar hjá SIDS ríkjunum. Að koma á sjálfbærri þróun þar getur orðið kostnaðarsamara en annarsstaðar og SIDS ríki þurfa meira en önnur lönd til byggja upp viðbrögð við náttúruhamförum, nokkuð sem við þekkjum ágætlega hér á landi. Þeir þurfa fjármagn til að fjárfesta í nýjum þróunarlíkönum og lausnum sem geta breytt veikleika í styrkleika. Kortleggja þarf þau þróunartækifæri sem eru til staðar.

Lítil áhersla er á framlög og aðstoð við fiskveiðar og uppbyggingu fiskveiða eins og við þekkum þær en nefndar með uppbyggingu í landbúnaði. Ef við skoðum í hvað þróunarsamvinna hefur farið hjá SIDS ríkjum þá sýnir Mynd 6 það vel. Fiskveiðar flokkast með landbúnaði og lítill hluti af þessum 6% sem fer til landbúnaðar. Þessi skýrsla dregur fram helstu punkta úr stærri skýrslu um sama mál og þar kemur fram að fjárframlög til fiskimála eru 2% af heildarframlögum.
Mynd 6 Ráðstöfun fjárframlaga innan SIDS ríkja

Ef við horfum til þeirra strandríkja sem þarfnast aðstoðar eða eru flokkuð sem þróunarríki og hvaða lögsögu þau hafa og setjum inn þær upplýsingar um hvaða magn er veitt á þeirra hafsvæði sést vel hve hlutfallslega lítið kemur inn til viðkomandi ríkja. Um leið sést hvað framleiðsla þeirra landa er lítil í ef horft er á stærð efnahagslögsögu viðkomandi ríkja.

Innviðir þessara ríkja hafa verið skoðaðir og þar er margt sem þarf að bæta úr til að aðstoða þau við að komst í hóp þróaðra ríkja.


Tafla 8 Efnahagslögsaga SIDS ríkja og framleiðsla skv. FAO 2013


Íslendingar eiga efnahagslögsögu sem er 751.000 km2 að stærð og samkvæmt upplýsingum FAO framleiddum við 1.372.315 tonn af sjávarfangi árið 2013. Ísland er því í 20. sæti þjóða þegar kemur að magni sjávarfangs en í 37. sæti þegar kemur að stærð efnahagslögsögu. Ef við berum okkur saman við löndin í töflu 8 og horfum á þessi lönd sem flokkuð eru sem SIDS lönd og það magn sem framleitt er og skráð á þau sést hversu lítið er unnið af sjávarfangi úr þeirra lögsögu. Margar útskýringar eru á þessu. Framleiðni hafsvæðisins eru mismunandi, þekking á veiðum og aðferðir að sama skapi ólíkar svo og óvissa um skráningar.

En það er augljóst að miklir möguleikar eru til að gera betur. Fyrst og fremst þarf þekkingu og vitneskju um þá tækni sem við búum yfir. Það er á engan hátt hægt að setja samasemmerki á stærð efnahagslögsögu og veidds magns. Það eru margir þættir sem þurfa að koma til svo hægt sé að segja til um framleiðimöguleika hvers lands, en þeir eru miklir. Bara svo eitthvað sé nefnt þá er sagt að hægt sé að rækta um 10 kg af rótargrænmeti á hverjum fermetra á landi en það er hægt að ala 20 kg af laxi í hverjum rúmmetra af sjó. Sumar tegundir þola meiri þéttleika og vaxtarharði er að mestu háður hitastigi.

Hvað hver stofn þolir af veiði á hverjum stað er háð umhverfisþáttum sem þarfnast rannsóknar og það er eitthvað sem við kunnum hér á landi. Veiðar, veiðafæragerð, bátategundir fyrir þau veiðarfæri, vinnslutækni, markaðsetning, útflutningur og annað sem að slíkri uppbyggingu kemur er okkur í lófa lagið að koma á í viðkomandi landi ef innviðir viðkomandi lands eru til eða lönd tilbúin til að laga sig að því sem til þarf.

Sjálfbær nýting auðlinda hafsins getur veitt SIDS ný tækifæri til að efla hagvöxt og takast á við mikilvægar áskoranir eins og mikið atvinnuleysi, matvælaóöryggi og fátækt. Áhrif mengunar og sóðaskapar mannsins og alvarlegar ógnir við höf í formi mengunar, niðurbrots vistkerfa, loftslagsbreytinga og óhóflegrar nýtingar fiskistofns og sjávarauðlinda kallar á að koma þarf á jafnvægi milli vaxtar í efnahagssvæðum sjávar og varðveislu hafsvæða. Íslendingar í samvinnu við alþjóðasamfélagið gætum veitt SIDS ráðgjöf til að þróa áætlanir um Bláa hagkerfið og fjárfestingar sem stefna að uppbygginu í atvinnugreinum á strandsvæðum með einkareknum fyrirtækjum.

Hægt er með samstilltu átaki og markvissum vinnubrögðum að setja saman verkefnahóp sem vinnur að útfærslu verkefnis. Slíkur hópur tæki að sér uppbyggingu innan fiskimála í einhverju ofangreindra landa eða jafnvel lands sem flokkast sem þróunarland og uppfyllir þau skilyrði sem sett yrðu fyrir þróunarsamvinna héðan. Mikill áhugi er á slíku átaki hjá öllum þeim sem rætt var við og kom sú hugmynd upp oftar einu sinni. Fyrirtæki vilja sjá von um hagnað af verkefninu til skemmri eða lengri tíma, fræðasamfélagið vill efla vísindin og koma þeim á framfæri með fræðslu, opinberir aðilar vilja árangur og sjá stefnu framfylgt svo og alþjóðasamtök. Það virðist sem tvær stefnur séu í gangi innan alþjóðasamfélagsins. Annars vegar verndun og svo sjálfbær nýting. Hvað átt er við með „protected areas“ er ekki alveg ljóst. Hér er mynd úr skýrslu OECD Small island developing states (SIDS), og sýnir hvað lítið af hafsvæðum SIDS ríkja er undir vernd þeirra. Að meðaltali eru þetta 5,3% hafsvæðis þeirra sem er undir vernduðum svæðum sem er líklega ofmat. En hvort verndin felst í lokun svæða eða nýtingu er ekki hægt að setja til um.


10 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

Comments


bottom of page