top of page
Search

Besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi


“ Því miður hefur pólitísk óeining komið í veg fyrir að við sjáum þau verðmæti sem við höfum í höndunum”

Við Íslendingar eigum mikið undir nýtingu fiskistofna okkar hér við land. Í viðleitni til að tryggja hámarksafrakstur höfum við leitað á svið vísinda og rannsókna. Veiði okkar dýrmætu stofna byggist á rannsóknum, söfnum upplýsinga og úrvinnslu þeirra. Þar getum við bætt okkur verulega en utan um allt þetta höfum við smíðað það sem mætti kalla „íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið“ með samstarfi opinberra aðila, fyrirtækja, einstaklinga og vísindasamfélags. Það byggist meðal annars á því að hið pólitíska vald ákveður leyfilegan heildarafla að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Aflanum er síðan úthlutað í samræmi við aflamark sem gengur kaupum og sölum á markaði og stuðlar þannig að hagræðingu fiskveiðiflotans. Á þennan hátt hefur kerfið skapað hvata til að hagræða í rekstri, stuðla að hámarksnýtingu aflans og síðast en ekki síst eflt sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Ekki er síður mikilvægt að kerfið hefur ýtt undir fjárfestingu í öruggari skipum, nýjustu tækni, aukinni fagmennsku og verulegri fækkun slysa til sjós. Blessunarlega eru banaslys nánast úr sögunni. Engin þjóð ætti að fagna slíku meira en Íslendingar með sína mannskæðu sögu sjósóknar.


Nú sýna nýjar rannsóknir að kolefnisfótspor sjávarútvegsins hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum. Meðal niðurstaðna er að dregið hefur úr heildarkoltvísýringsstigi um allt að helming á milli áranna 1997 til 2018. Um leið er upplýst að það er fiskveiðistjórnunarkerfið sjálft sem reynist eitt öflugasta verkfærið til þess að draga úr losun í sjávarútvegi. Enn og aftur erum við minnt á mikilvægi okkar árangursríka fiskveiðistjórnunarkerfis. Það er hægt að taka undir með Daða Má Kristóferssyni, prófessor í hagfræði, sem segir það grátlegt að kerfið sé ekki í notkun víðar í heiminum.


Verðmæti í kerfinu


Við hjá Bláa hagkerfinu höfum reynt að vekja athygli á þeim verðmætum sem felast í fiskveiðistjórnunarkerfinu í heild sinni. Geta þess til að stýra auðlind með sjálfbærum hætti um leið og afrakstur sjávarútvegsins er tryggður er nú óumdeild staðreynd. Því miður hefur pólitísk óeining komið í veg fyrir að við sjáum þau verðmæti sem við höfum í höndunum, sjálft fiskveiðistjórnunarkerfið, verðmæti sem ættu að geta nýst öðrum þjóðum sem eru í vandræðum með að stýra og byggja upp sjálfbærar veiðar. Ótrúlega margar þjóðir þurfa á því að halda.


Fiskveiðisstjórnunarkerfið okkar er afrakstur 40 ára þróunar þar sem stöðugt hefur verið leitast við að bæta og aðlagaða kerfið að þeim meginmarkmiðum sem við þurfum á að halda, vernd og sjálfbærni fiskistofna og arðbærum og áhættuminni rekstri. Þetta hefur okkur tekist en einhverra hluta vegna ríkir ekki sátt um kerfið hjá ákveðnum pólitískum hópum. Líklega er það vegna ókunnugleika enda snýst umræðan ekki meginkosti fiskveiðisstjórnunarkerfisins eða þau markmið sem við settum okkur með fiskveiðistjórnunarlögunum.


Í nýlegu viðtali sagði Daði Már. „Ef við drögum almennan lærdóm af niðurstöðum okkar sýnir það að í heiminum almennt væri hægt að ná miklu betri árangri bara með því að bæta fiskveiðistjórnun. Það þyrfti ekkert endilega skipta um tækni strax. Byrjum á kerfinu. Það myndi skila margföldum áhrifum í sjálfbærum veiðum og líka betri efnahag,“ segir Daði og bætir við að lokum: „Það er því grátlegt að við skulum ekki vera að flytja þessar hugmyndir út.“


Um nokkurra missera skeið höfum við hjá Blá hagkerfinu reynt að vekja athygli stjórnkerfisins og annarra ráðamanna á þeim verðmætum sem við höfum í höndunum og þeirri samfélagslegu skyldu sem við höfum, að stuðla að bættri nýtingu og sjósókn um allan heim. Í janúar 2020 var skýrslu skilað til utanríkisráðherra, Þróunarsamvinna á sviði fiskimála, en þar var lagt til að í nafni þróunarsamvinnu myndu við flytja út þekkingu okkar á auðlindastýringu og kynna ávinning Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Þannig gætum við stuðlað að aukinni hagsæld og velferð samstarfsþjóða. Við hér á landi höfum komist frá örbyrgð til velsældar vegna þess hvernig við göngum um okkar auðlindir og skilum þeim í betra ástandi til komandi kynslóða. Það fellur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmið sem við getum kennt öðrum hvernig á að koma í framkvæmd. Því er vonandi að fleiri vakni til vitundar um það sem við höfum í höndunum og þá ábyrgð sem því fylgir.

Birt í Morgunblaðinu 25 september 2023
4 views0 comments

Recent Posts

See All

Dauðaslys á sjó í Noregi og á Íslandi

Fimm sinnum líklegra að sjómaður farist við störf í Noregi en á Íslandi Árið 2008 er merkilegt í sögu Íslands því það er fyrsta árið þar sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Að su

留言


bottom of page