„Unga fólkið okkar, sem nú berst af miklum ákafa fyrir náttúrunni, þarf að kynna sér hvernig við stýrum okkar takmörkuðu auðlind í sjónum.“
Í umfjöllun um loftslagsráðstefnuna í Egyptalandi í nóvember síðastliðnum kom fram hjá forseta Ungra umhverfisverndarsinna að einungis innan við 0,1% landgrunns Íslands væri verndað. Kom það í framhaldi af umræðu vegna 30/30 markmiðanna svokölluðu sem byggjast á því að friða 30% af landi og hafi fyrir ágangi mannsins. Vinna við þessi markmið er hafin og á að vera lokið fyrir árið 2030.
Umræða um verndun og friðun getur verið vandasöm ef ekki er horft á staðreyndir málsins. Þá getur verið gagnlegt að skoða meðfylgjandi mynd sem sýnir þau hólf og svæði innan efnahagslögsögu Íslands sem nú þegar eru lokuð fyrir veiðum eða ákveðnum veiðarfærum til viðbótar við þá stýringu sem felst í aflamarkinu. Þarna birtast reglugerðarlokanir, skyndilokanir, sem eru í gildi núna, lokanir vegna hrygningastopps, grásleppulokana og annara lokana. Eins og allir sjá þá eru þessi hólf meir en 0,1% af efnahagslögsögunni. En við getum með sanni sagt að öll okkar efnahagslögsaga er nýtt á sjálfbæran hátt. Þannig getum við sagt að við hér á landi höfum náð 30% markmiðunum 100%.
Myndin sýnir þær svæðalokanir sem eru í gildi við landið innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands
Mikilvægt er fyrir þá sem taka þátt í þessari umræðu að kynna sér hvernig að málum er staðið nú þegar. Hér við land notum við botnvörpu, flottroll, línu, handfæri, dragnót, plóg og nætur við veiðar á mismunandi svæðum með margvíslegum reglum sem eiga við um hvert veiðararfæri og eftir því hvað er veitt og hvar. Sérstakar reglur eru um stærðir báta, lengd og afla, allt eftir því hvaða veiðiskapur er stundaður og á hvaða svæðum má veiða. Að auki er svo hámark afla á hverja fisktegund skipt niður á báta eftir aflamarki. Þótt mest sé talað um eina setningu í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða en ekkert um þá næstu, þá þurfa útgerðarmenn og skipstjórnarmenn að fara eftir þeim lögum öllum svo og öllum þeim reglugerðum sem eiga við um veiðar við Ísland. Er heildaryfirlit þeirra að finna í sérriti matvælaráðuneytisins sem er heilar 314 blaðsíður af lagatexta fyrir þá sem vilja kynna sér það efni.
Einstök aðgerð til hagræðingar og verndar
En það sem er mest um vert og skiptir öllu þegar þessi mál eru skoðuð er að við Íslendingar höfum nú þegar náð einstökum árangri við stýringu á takmörkuðum auðlindum og höfum mikið fram að færa á því sviði. Það sem er sérstakt við okkar módel er að þær aðgerðir sem gripið var til voru framkvæmdar af sjávarútvegsfyrirtækjunum og á kostnað greinarinnar. Ríkið kom með lagaramma sem fyrirtækin urðu að laga sig að og leiddi það til hagræðingar og breytinga sem við erum að núna að uppskera árangurinn af.
Þegar sagan er skoðuð sést að okkur var nauðugur sá kostur að ná stjórn á veiðum okkar hér við land. Til að ráðast í það var ekki hægt að treysta á fjármagn frá hinu opinbera því það var sjávarútvegurinn sem einn bjó til gjaldeyrir á þessum tíma. Því varð nauðsynleg hagræðing á íslenskum sjávarútvegi að koma innan frá, framkvæmt og kostað af greininni sjálfri. Það tókst með einstökum árangri.
Unga fólkið okkar, sem nú berst af miklum ákafa fyrir náttúrunni, þarf að kynna sér hvernig við stýrum okkar takmörkuðu auðlind í sjónum. Þar getum við kennt og leiðbeint öðrum þjóðum hvernig á að stýra takmörkuðu auðlindum. Sjór þekur 70% jarðar og verndun og viðhald vistkerfa sjávar kallar á mikla þekkingu og reynslu. Strandþjóðir heims vita sumar hverjar ekki hvernig þær eiga að stýra sínum fiskveiðum.
Við þurfum að yrkja þessa jörð og skila henni í betra ástandi en við tókum við henni. Við þurfum að kenna unga fólkinu okkar hvernig við gerum það. Það hefur verulega skort á þekkingu meðal almennings hvernig íslenskur sjávarútvegur er rekinn og hvað verið er að gera í sjávarútvegi þrátt fyrir að hann sé undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Þegar íslensk ungmenni ná að kynna sér sérstöðu íslensks sjávarútvegs þá munum við efla hann enn frekar og vonandi hjálpa öðrum þjóðum til þess sama.
コメント