Meinlokur um sjávarútveginn.
Í ræðu sinni segir Kári meðal annars ...
Útgerðarfélögin sem eiga öll skipin og kvótann eru hálfgerð glæpafélög sem arðræna íslenska þjóð og níðast á sjómönnum með því að hýrudraga þá með flóknum bókhaldstrikkum, til dæmis með því að eiga félög í útlöndum sem þau selja aflann á lágu verði sem svo áframselja hann á háu verði. Þessi saga er með öllu óásættanleg hvort sem hún er sönn eða login og ég vil leggja á það áherslu að með þessum orðum er ég á engan máta að leggja mat á sannleiksgildi hennar. Sjómennirnir okkar eiga það einfaldlega ekki skilið að svona sé talað um atvinnugreinina þeirra. Þessu verður að breyta. Og það er ljóst að þessu verður ekki breytt án aðkomu sjómanna. Þeir verða að koma að þeirri endurskoðun sjávarútvegs á Íslandi sem leiðir til þess að hann öðlist aftur það traust og þá væntumþykju þjóðarinnar sem hún á skilið. Það er búið að tala um þessa ljótu nútímasögu íslensks sjávarútvegs í áratugi á síðum dagblaða, í ljósvökum, á Alþingi, fyrir dómstólum og öllum kaffistofum landsins og ekkert gerist.
Páll Magnússon, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Kára Stefánssonar, birti þessa grein í Morgunblaðinu í apríl 2014 til að reyna að vinna gegn meinlokum í sjávarútvegi. Kannski Kári ætti að ræða aftur við Pál sem segir í grein sinni: „Jú, hún lýsir í hnotskurn þeirri meinloku sem ég nefndi hér í byrjun. Hér eru á ferðinni vinnusamir og útsjónarsamir útgerðarmenn, sem sjálfir eru sinnar gæfu smiðir, og duglegir sjómenn. Það hafa skipst á skin og skúrir. Stundum tap og stundum gróði. Síðustu árin hafa verið góð og þá rísa upp raddirnar – háværastar í miðborg Reykjavíkur – um að „íslensk alþýða“ njóti ekki auðlinda sinna í sjónum bara „sægreifarnir“. Er þetta rétt? Höldum aðeins áfram með söguna af útgerðinni í Eyjum:
Aflaverðmæti í fyrra var rúmlega 2,6 milljarðar króna. Af því skiluðu sér tæpar 700 milljónir beint í skatta og opinber gjöld frá útgerð og áhöfn, eða meira en fjórða hver króna af því sem aflaðist. Þessi upphæð samsvarar því sem kostar ríkið að reka Þjóðminjasafnið og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þetta dugar líka til að reka Stofnun Árna Magnússonar og Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Þessi fjárhæð fer líka nærri því að dekka framlag ríkisins til Þjóðleikhússins. Bara veiðigjaldið er 174 milljónir og það dugar til að reka Íslenska dansflokkinn og Hús skáldsins að Gljúfrasteini. Þessi samjöfnuður er tekinn við ýmsa þætti úr menningargeiranum því það er gjarnan þaðan sem hæstu hrópin heyrast um „arðrán“ útgerðarinnar.
Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni?“
Comments